Íslenski boltinn

Indriði kominn heim í KR

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Indriði Sigurðsson var kynntur sem nýr leikmaður KR í dag.
Indriði Sigurðsson var kynntur sem nýr leikmaður KR í dag. Vísir/Vilhelm
Indriði Sigurðsson, fyrirliði Viking Stavanger í norsku úrvalsdeildinni, samdi í dag við uppeldisfélag sitt KR til tveggja ára og spilar með liðinu í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð.

Indriði var kynntur á blaðamannafundi KR-inga í Frostaskjóli í dag, en leiktíðinni í Noregi er ekki lokið. Hann á enn fjóra leiki eftir með norsku Víkingunum.

Sjá einnig:Indriði: Næ leikjafjölda pabba eftir svona ellefu ár

Indriði, sem er fæddur 1981, braust inn í KR-liðið 1998 og varð Íslands- og bikarmeistari með KR árið 1999. Hann fór svo í atvinnumennsku árið 2000 og hefur verið þar síðan.

Þessi öflugi varnarmaður gekk í raðir Lilleström í Noregi og spilaði með liðinu í fjögur ár áður en hann gekk í raðir Genk í Belgíu þar sem hann spilaði í þrjú ár.

Þetta er reyndar í annað sinn sem Indriði kemur heim í KR eftir að hann fór í atvinnumennsku, en hann sneri aftur 2006 þegar hann yfirgaf Genk.

Hann náði þó ekki að spila með KR-liðinu í úrvalsdeildinni hér heima því norska liðið Lyn bauð honum samning og fór Indriði aftur út. Indriði var aðeins formlega í KR í átta daga árið 2006.

Indriði spilaði með Lyn í fjögur ár áður en hann gekk í raðir Viking þar sem hann er að klára sitt sjöunda tímabil. Hann var gerður að fyrirliða Viking 2011 og hefur verið á meðal bestu miðvarða norsku úrvalsdeildarinnar undanfarin ár.

Indriði á að baki 65 landsleiki fyrir A-landslið Íslands auk þess sem hann spilaði með 44 landsleiki með yngri landsliðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×