Innlent

Illugi telur Sigmund misskilinn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. vísir/gva
„Ég held að menn misskilji forsætisráðherra. Mér finnst hann vera að segja hið augljósa. Það þarf að tryggja nægt fjármagn fyrir háskólastarfsemi, hvort sem er úti á landi eða í Reykjavík,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.

Vísar Illugi þar til ummæla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um að ákvörðun Háskóla Íslands um að hætta með íþróttakennaranám á Laugarvatni muni „væntanlega kalla á að fjárveitingum verði í auknum mæli beint til skóla á landsbyggðinni á þeirra eigin forsendum“.

Ummæli forsætisráðherra vöktu nokkra reiði. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði, sagði þau hótanir og minna á stjórnarfar í alræðisríkjum. Þá sagði Magnús Karl Magnússon, prófessor í læknadeild, forsætisráðherrann hóta að svelta háskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Illugi segir fráleitt að halda því fram að forsætisráðherra sýni alræðistilburði eða standi í hótunum.

„Það sem forsætisráðherra bendir á er að háskólakerfið er undirfjármagnað. Ef við viljum halda úti starfsemi úti á landi, og það viljum við, þá þarf að tryggja fjármagn til að það sé hægt,“ segir Illugi og bendir á að fyrir liggi stefnumótun á vegum Vísinda- og tækniráðs um að auka fjármagn til háskólanna. Háskóli Íslands hafi sjálfstæði samkvæmt lögum og taki sínar ákvarðanir.

„Háskólinn hefur sjálfur bent á að það voru ekki nógu margir nemendur til að halda úti þessu námi,“ segir menntamálaráðherra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×