Innlent

Íbúum fjölgar í Garðinum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Íbúar í Garðinum voru 1.480 í júlí samkvæmt bráðabirgðatölum.
Íbúar í Garðinum voru 1.480 í júlí samkvæmt bráðabirgðatölum.
„Við fögnum öllum nýjum íbúum og bjóðum alla velkomna,“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði, en íbúum í sveitarfélaginu hefur fjölgað um tæplega fjögur prósent á sjö mánuðum samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands. Þann 1. desember árið 2015 voru íbúar 1.425 en voru, samkvæmt bráðabirgðatölum 18. júlí síðastliðinn 1.480.

„Ég held að ástæðan sé aukið framboð atvinnu á svæðinu og svo veit ég um nokkur dæmi þar sem fólk er að selja eignir sínar á höfuðborgarsvæðinu til þess að kaupa ódýrari eign hérna,“ segir Magnús og bætir við að einnig séu dæmi þess að barnafólk sæki í góða þjónustu í Garði.

Íbúar í Garði voru, þegar mest var, 1.550 árið 2009 en þeim fór fækkandi árin á eftir og voru 1.409 árið 2014. Mikill viðsnúningur hefur orðið síðan. Ef fram heldur sem horfir gæti íbúafjöldi í sveitarfélaginu orðið nálægt 1.500 í lok árs 2016.

Magnús segir mikla sölu hafa verið á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu síðustu mánuði. Íbúðalánasjóður hefur selt mikið af þeim eignum sem voru í eigu sjóðsins á svæðinu. Þá hafa verktakar og aðrir aðilar selt eignir sem áður stóðu auðar. „Það er enn til laust húsnæði til sölu.“

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×