Innlent

Íbúafjöldi á Íslandi kominn yfir 330 þúsund

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslendingar á góðri stundu á Arnarhóli.
Íslendingar á góðri stundu á Arnarhóli. Vísir/Daníel
330.610 manns voru búsettir á Íslandi í lok júní. Karlar eru skör fleiri en konur en landsmönnum fjölgaði um 870 á öðrum ársfjórðungi. Erlendir ríkisborgarar eru 25.090. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands. Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 212.120 manns.

Á 2. ársfjórðungi 2015 fæddust 1.050 börn, en 540 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 350 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 120 umfram aðflutta, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 470 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu.

Flestir Íslendingar halda til Noregs

Noregur var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara en þangað fluttust 170 manns á 2. ársfjórðungi. Til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttust 480 íslenskir ríkisborgarar af 680 alls. Af þeim 570 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, 140 manns.

Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku (140), Noregi (120) og Svíþjóð (100), samtals 360 manns af 550. Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 340 til landsins af alls 1.050 erlendum innflytjendum. Litháen kom næst, en þaðan fluttust 60 erlendir ríkisborgarar til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×