Lífið

Hvorki skrítið né erfitt að vera vegan

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Þórdís Hermannsdóttir, nýtur þess að elda ljúffenga rétti í eldhúsinu.
Þórdís Hermannsdóttir, nýtur þess að elda ljúffenga rétti í eldhúsinu. Mynd/Þórdís
Linsubauna- og sætkart­öflupottréttur. Mynd/Þórdís.
„Áður en ég tók þátt í veganúar 2014 var ég búin að vera grænmetisæta í nokkur ár, þá hafði ég hugsað út í það lengi að verða vegan. Ég var viss um að það væri ómögulegt að lifa án mjólkursúkkulaðis og osts, en ég hafði rangt fyrir mér,“ segir Þórdís Hermannsdóttir, en hún hefur verið vegan í rúmlega eitt og hálft ár og aldrei liðið betur á nokkru öðru mataræði.

Nú stendur yfir árlega átakið veganúar sem haldið er allan janúarmánuð til að hvetja fólk til að prófa að vera vegan og hefur nú fjöldi fólks þegar skráð þátttöku sína á Facebook-síðu átaksins og óhætt er að segja að töluverð vitundarvakning sé meðal fólks hvað varðar vegan-lífsstíl.

„Það er svo sannarlega vakning í gangi varðandi veganisma, ótrúlegasta fólk er farið að stíga skref í þessa átt. Fólk er farið að átta sig á því að þetta er hvorki skrítið né erfitt. Veganúar er æðislegt fyrirbæri, í hverjum janúarmánuði er fólk hvatt til að prófa að sleppa öllum dýra­afurðum. Markmiðið er að vekja sem flesta til umhugsunar um það hvaða áhrif neysla dýraafurða hefur á svo margt í kringum okkur, ekki bara dýrin og okkur sjálf heldur einnig umhverfið,“ útskýrir Þórdís.

Það getur verið snúið að finna einfaldar og skemmtilegar uppskriftir til að prófa sig áfram í veganúar svo fréttablaðið fékk Þórdísi til að deila með okkur einfaldri og góðri uppskrift, sem allir geta nýtt sér.

„Einn af mínum uppáhalds réttum er linsubauna- og sætkart­öflupottréttur sem ég hef verið að þróa, þetta er auðveld uppskrift sem bragðast vel,“ segir Þórdís og hvetur alla til að prófa.

Linsubauna- og sætkartöflupottréttur



1 sæt kartafla

4 hvítlauksrif

1 cm engiferrót

2/3 bolli rauðar linsubaunir

3 tsk. rautt karrímauk (passa að það sé vegan)

1 lítil dós tómatmauk

3 bollar grænmetissoð (vatn og grænmetiskraftur)

½ tsk. túrmerik

2 tsk. kókosolía

2 tsk. agavesíróp

Aðferð: Hvítlaukur, engifer og kartöflur eru steikt upp úr kókosolíu í nokkrar mínútur. Karrímauki er svo bætt við og hrært í tvær mínútur. Næst er tómatmauki og grænmetissoði hrært saman við. Linsubaunum, sírópi og túrmeriki er svo bætt við og suðan látin koma upp á meðan hrært er í pottinum. Eftir að suðan kemur upp er hitinn lækkaður og rétturinn látinn malla í um tuttugu mínútur eða þar til linsurnar eru orðnar mjúkar. Svo er um að gera að smakka og bæta við kryddi eftir smekk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×