Lífið

Hvar eru sigurvegararnir í dag?

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
vísir/getty
Raunveruleikaþátturinn America’s Next Top Model er einn sá farsælasti í heiminum en fyrir stuttu hófust sýningar á 21. seríu undir harðri stjórn Tyru Banks.

Í lok hverrar seríu er upprennandi fyrirsæta krýnd sigurvegari en hvað tekur svo við hjá módelunum?

Vísir fór á stúfana og hafði upp á níu af þeim tuttugu fyrirsætum sem hafa borið sigur úr býtum í ANTM, eins og þátturinn er kallaður.

Á leiklistarbraut

Eva Marcille Pigford

3. sería

Eva var iðin við kolann í fyrirsætubransanum eftir sigurinn og vann meðal annars fyrir DKNY, Samsung, og CoverGirl. Undanfarið hefur hún einbeitt sér að leiklist, en er enn á skrá hjá L.A. Models. Hún hefur leikið hlutverk í Smallville, The Young and the Restless og í I Think I Love My Wife. Þá var hún í tónlistarmyndböndunum Live It Up með Jennifer Lopez og Best of Me með Tyrese.

Dómari í fegurðarsamkeppni

Naima Mora

4. sería

Naima var dómari í Miss Teen USA árið 2005 og gaf út bókina Naima Mora‘s Model Behavior árið 2012. Hún hefur setið fyrir í blöðum á borð við Elle, Fuego, usWeekly, Radar, In Touch og Star. Þá hefur hún gengið tískupalla fyrir merki á borð við Christopher Deane, Gharani Strok og Walmart. Hún fór með hlutverk í óháðu myndinni Sarbanes-Oxley 2006 og er söngkona í Galaxy of Tar.

Vekur athygli á sóríasis

CariDee English

7. sería

CariDee var næstum því rekin úr þáttunum en stóð að lokum uppi sem sigurvegari. Hún hefur blómstrað sem fyrirsæta og prýtt forsíður blaða á borð við Seventeen, Inked og In Touch. Þá hefur hún setið fyrir fyrir merki á borð við L‘Oreal, JCPenney og Carlos Campo. CariDee er auk þess talskona bandarísku sóríasisstofnunarinnar og vill vekja athygli á sjúkdómnum.

Gafst ekki upp

Jaslene Gonzalez

8. sería

Jaslene var rekin heim í sjöundu seríu en lét ekki deigan síga, reyndi aftur og sigraði í þeirri áttundu. Jaslene hefur haldið sig við fyrirsætubransann og hefur sést í tímaritum eins og usWeekly, In Touch, Vibe Vixen, Seventeen og Latina. Hún hefur einnig verið í aðalhlutverki á fjórum risaskiltum á Times-torgi í New York síðustu ár.

Ofurmjótt mitti

Ann Ward

15. sería

Ann vakti verðskuldaða athygli í ANTM þar sem hún var með svo agnarmjótt mitti. Hátískuheimurinn tók Ann fagnandi eftir sigurinn og hefur hún til að mynda setið fyrir í myndaþætti fyrir ítalska Vogue. Þá hefur hún einnig prýtt forsíðu tímaritsins Valet og gengið tískupallana fyrir tískudrottninguna Vivienne Westwood.

Eigin lína

Whitney Thompson

10.sería

Whitney er fyrsta og eina fyrirsætan í yfirstærð til að fara með sigur af hólmi í þáttunum. Eftir að hún vann varð hún talsmaður bandaríska átröskunarsambandsins. Hún hefur einnig leikið í auglýsingu fyrir CoverGirl með söngkonunni Rihönnu og unnið fyrirsætustörf fyrir Target, Saks Fifth Avenue og Forever 21. Árið 2009 setti hún síðan á markað skartgripa- og kertalínu sem heitir Supermodel.

Glæstar vonir

Nicole Fox

13. sería

Nicole varð hlutskörpust í ANTM-seríunni þar sem aðeins lágvaxnar fyrirsætur máttu taka þátt. Síðan hún sigraði hefur hún unnið fyrirsætustörf fyrir merki á borð við Forever 21 og House of Harlow, sem er í eigu Nicole Richie. Glöggir sjónvarpsáhorfendur hafa eflaust einnig tekið eftir því að henni hefur brugðið fyrir í sápuóperunni Bold and the Beautiful.

Elskar raunveruleikasjónvarp

Adrianne Curry

1. sería

Adrianne hefur haft í nægu að snúast síðan hún vann fyrstu seríu ANTM, 2003. Tveimur árum síðar tók hún þátt í raunveruleikaþættinum The Surreal Life. Þar hitti hún eiginmann sinn, Christopher Knight, sem er þekktastur fyrir að leika í The Brady Bunch á áttunda áratugnum. Þau gerðu heimildarþætti um líf sitt, My Fair Brady árið 2005. Adrianne og Cristopher skildu árið 2012. Þá hefur Adrianne einnig setið fyrir í Playboy tvisvar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×