Innlent

HS Veitur vissu af misferli

Þorgeir Helgason skrifar
Dómurinn féll í Hæstarétti Íslands.
Dómurinn féll í Hæstarétti Íslands. vísir/gva
Hæstiréttur hefur dæmt öryggistrúnaðarmann HS Veitna í fimmtán mánaða fangelsi fyrir fíkniefnamisferli. Við ákvörðun refsingarinnar var horft honum til refsimildunar að hann hafði ekki sætt refsingu áður.

„Við vissum af þessu máli og vorum að bíða eftir úrskurði Hæstaréttar,“ segir Egill Sigmundsson, forstöðumaður rafmagnsdeildar HS Veitna. Honum hefur ekki verið vikið úr starfi en Egill segir málið vera til skoðunar.

Öryggistrúnaðarmaðurinn var handtekinn heima hjá sér í apríl 2014. Á heimili hans fundust um það bil 250 grömm af amfetamíni, 100 grömm af kókaíni, 50 grömm af marijúana og um 600 stykki af MDMA-töflum. Ásamt fíkniefnunum var lagt hald á sex fartölvur sem stolið hafði verið úr tölvuverslun daginn áður.

Öryggistrúnaðarmaður er kosinn af starfsmönnum til þess að sinna vinnuverndarverkefnum fyrir þeirra hönd. Honum ber að fylgjast með því, að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað séu í samræmi við vinnuverndarlög.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×