Lífið

Hrista upp í frægustu ástarsögu heims

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Aðalleikkonurnar Agnes Gísladóttir og Rannveig Eva Snorradóttir fara með hlutverk elskendanna.
Aðalleikkonurnar Agnes Gísladóttir og Rannveig Eva Snorradóttir fara með hlutverk elskendanna.
„Við vildum gera eitthvað nýtt og breyta þessum týpíska söguþræði sem allir þekkja. Þannig að í stað þess að hafa Rómeó og Júlíu þá verða tvær stelpur, þær Rómeyja og Júlía,“ segir Bára Lind Þórarinsdóttir í Listafélagi Verzlunarskóla Íslands. Listafélagið setur í vetur upp nýja útgáfu af einni frægustu ástarsögu heims, Shakespeare-leikritinu Rómeó og Júlíu. Með aðalhlutverkin fara þær Agnes Gísladóttir sem leikur Rómeyju og Rannveig Eva Snorradóttir sem fer með hlutverk Júlíu.

Eins og áður sagði verða aðalpersónurnar tvær stelpur, en ekki strákur og stelpa eins og hefur verið í þessu verki. Formaður Listafélagsins, Rán Ísold Eysteinsdóttir, segir ástæðurnar fyrir því að ákveðið var að hafa tvær stúlkur í aðalhlutverkum margar. „Við erum nýbúnar að stofna femínistafélag hér í skólanum og í fyrsta sinn í sögu skólans eru stelpur í meirihluta í stjórn. Okkur fannst þetta líka viðeigandi vegna þess að þetta leikrit var áður bara leikið af karlmönnum, en konur máttu ekki leika á þeim tíma,“ segir Rán.

Bára bætir við að vegna togstreitunnar á milli fjölskyldnanna tveggja í verkinu verði þetta áhugaverður vinkill. „Þetta gerir spennuna á milli þeirra enn meiri og það verður skemmtilegt að sjá hvernig það þróast,“ segir hún.

Sagan verður sett í nútímabúning, en verkið verður frekar tímalaust. Búningar eru enn í vinnslu, en hvíti liturinn mun ráða ríkjum í búningum og sviðsmynd. „Handritinu var töluvert breytt, sagan heldur sér alveg en við vildum taka út rímurnar, nema á þeim stöðum þar sem það passar verkinu betur. Samræður Rómeyju og Júlíu eru til dæmis alltaf í bundnu máli. Okkur fannst of þungt, bæði fyrir áhorfendur og leikara, að hafa textann svona þungan. Það passaði ekki alveg fyrir menntaskólaleikrit,“ segir Bára, en þau fengu góðfúslegt leyfi til þess að nota handrit í þýðingu Hallgríms Helgasonar.

„Það fengu allir sem taka þátt í þessu það verkefni að lesa handritið í gegn og reyna að skilja það. Núna erum við á fullu að kryfja til mergjar hvað öll orðin þýða, reyna að skilja algjörlega hvað þau eru að segja og endursegja það svo með okkar orðum þannig að allir skilji,“ segir Bára.

Leikstjóri verksins er Bjarni Snæbjörnsson, leikari og leiklistarkennari. „Núna eru æfingarnar bara að fara á fullt hjá okkur, en við stefnum að því að frumsýna 7. nóvember fyrir nemendur Verzlunarskólans,“ segir Bára.

Sala á almennar sýningar verður á miði.is og verður nánar auglýst síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×