Innlent

Hraunið um níu ferkílómetrar að stærð

Atli Ísleifsson skrifar
Rennsli hraunsins hefur ekkert minnkað í dag.
Rennsli hraunsins hefur ekkert minnkað í dag. Vísir/Egill
„Það dregur ekkert úr eldgosinu. Það eru vísbendingar um það að það komi meiri kvika inn í ganginn en kemur út úr honum, svo það virðist ekki létta á þrýstingnum,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í samtali við Vísi, aðspurður um framgang mála á gosstöðvunum í dag.

Magnús segir að menn hefðu frekar vilja sjá þetta í jafnvægi. „Þetta þarf þó ekki að þýða neitt sérstakt annað en það að það er ennþá að gliðna.“

Samkvæmt nýjustu mælingum virðist hraunið nú vera orðið um níu ferkílómetrar að stærð og rennslið ekkert að minnka.

Enn eru fjórir til fimm kílómetrar í að hraunið nái í Jökulsá á Fjöllum. „Það eru því nokkrir dagar í það að óbreyttu.

Fjórir möguleikar eru enn taldir líklegastir um framvindu mála:

- Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til annars eldgoss.

- Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.

- Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.

- Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum, en ekki er hægt að útiloka aðrar  hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×