Innlent

Hótaði því að börnin ælust upp móðurlaus

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23.september.
Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23.september. Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur gert karlmanni að sæta nálgunarbanni í sex mánuði gagnvart barnsmóður sinni þannig honum verði bannað að koma á eða í námunda við heimili hennar, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með nokkru móti. 

Dómurinn taldi rökstuddan grun um að maðurinn hafi átt í alvarlegum hótunum við konuna og sýnt af sér ógnandi hegðun gagnvart henni og börnum þeirra. Er hann meðal annars sagður hafa ítrekað reynt að komast inn á heimili konunnar og legið á dyrabjöllunni svo klukkustundunum skipti. Hafi hann hótað konunni lífláti og nauðgunum og sagðist konan óttast manninn mjög.

Þá sagði konan í skýrslutöku lögreglu að maðurinn væri að hóta því að börnin hennar myndu alast upp móðurlaus og að maðurinn myndi taka ungt barn þeirra ef hann fengi ekki að sjá hann. Maðurinn hafi jafnframt gengið í skrokk á sér áður sem og tvítugum syni hennar.  

Samkvæmt úrskurði dómsins barst síðasta tilkynning 18. september um að maðurinn hefði ráðist á konuna og börn hennar. Maðurinn hafi verið sjáanlega ölvaður þegar lögreglu bar að garði og er hann sagður hafa reynt að taka eldri barn þeirra, tæplega tveggja ára dreng, upp úr barnakerru. Þegar konan náði barninu af manninum er maðurinn sagður hafa ýtt konunni þannig að hún datt, með barnið í fanginu.

Maðurinn neitar sök í málinu. Honum var, með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 19. september, gert að sæta nálgunarbanni en lögregla taldi rökstuddan grun um refsiverð afbrot gagnvart konunni, einkum alvarlegar hótanir, ógnandi hegðan og ærumeiðingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×