Innlent

Höfum ekki efni á að gera ekki neitt

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Tvö prósent þjóðarinnar búa við sára fátækt.
Tvö prósent þjóðarinnar búa við sára fátækt. Fréttablaðið/gva
„Ég talaði um það allan tímann að þegar réttist úr kútnum myndi hópurinn sem býr við sára fátækt sitja eftir og það hefur verið að koma í ljós undanfarið ár.“ Þetta segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi Hjálparstarfs kirkjunnar, sem leiða mun vinnuhóp nýrrar velferðarvaktar sem fjalla á um sára fátækt. Annar hópur mun sérstaklega fjalla um aðstæður barnafjölskyldna.

Velferðarvaktin var stofnuð að frumkvæði stjórnvalda snemma árs 2009 til að fylgjast með afleiðingum efnahagshrunsins á heimilin í landinu. „Hún hafði vítt starfssvið. Hún var meira í því að grípa utan um öngþveitið sem varð eftir hrunið. Úrræði samfélagsins beindust fyrst og fremst að atvinnulausum en ekki þessum sem voru fátækir fyrir kreppu. Sá hópur býr við enn krappari kjör núna. Ég fagna þessu framtaki hjá félagsmálaráðherra að setja vaktina aftur af stað og það er gott að starfssvið hennar hefur verið þrengt.“

vilborg oddsdóttir
Vilborg bendir á að í tölum Hagstofunnar komi fram að tvö prósent þjóðarinnar, eða sex til sjö þúsund manns, búi við sára fátækt.

„Stærsti hlutinn er fólk sem hefur verið á örorkubótum til fjölda ára. Við erum kannski að horfa upp á þriðju kynslóð fólks sem er á örorkubótum og eða á framfæri félagsþjónustunnar. Við höfum ekki efni á að gera ekki neitt. Það kostar meira fyrir samfélagið að gera ekkert.“

Fyrst segir Vilborg eiga að kortleggja hópinn. „Við munum svo heyra í fólkinu sjálfu og kanna hvernig einstaklingarnir sjá sjálfir fyrir sér hvernig líf þeirra geti breyst. Lausnirnar þurfa að vera einstaklingsmiðaðar. Almennu úrræðin, eins og barnabætur og húsnæðisbætur, ná ekki til þessa hóps. Það þarf sértæk úrræði. Við þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt.“

Markmiðið er að fyrstu tillögur nýrrar velferðarvaktar til úrbóta verði tilbúnar í byrjun næsta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×