Fótbolti

Höddi Magg hvetur KSÍ til að bjóða Gunnleifi á leikinn við Frakka | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sumarmessan var á dagskrá Stöðvar 2 Sports í gærkvöldi en þar fór Hörður Magnússon yfir leik Íslands og Englands í 16-liða úrslitum á EM 2016 ásamt gestum sínum, Gunnleifi Gunnleifssyni og Tryggva Guðmundsson.

Gunnleifur hefur verið í íslenska landsliðshópnum undanfarin ár en var ekki valinn í lokahópinn fyrir EM. Hann var hins vegar á svokölluðum biðlista ásamt fimm öðrum leikmönnum.

Hörður stakk upp á því í gær að KSÍ ætti að bjóða Gunnleifi og eiginkonu hans á leikinn gegn Frakklandi í 8-liða úrslitum á Stade de France á sunnudagskvöldið.

„KSÍ gerði auðvitað vel að bjóða nokkrum stuðningsmönnum Tólfunnar á þennan leik [gegn Englandi],“ sagði Hörður.

„En ég sit hérna við hliðina á manni sem heitir Gunnleifur Gunnleifsson og mér finnst að KSÍ eigi að bjóða honum, og hinum sem voru á þessum biðlista, á leikinn á sunnudaginn ásamt konum þeirra.“

Máli sínu til stuðnings vísaði Hörður til framlags Gunnleifs til íslensks fótbolta.

„Ég veit að þú ferð hjá þér Gulli og þú vissir ekkert af þessu. En þú hefur gert það mikið fyrir íslenskan fótbolta og verið lengi í landsliðinu,“ sagði Hörður en Gunnleifur hefur leikið 26 landsleiki fyrir Íslands hönd.

Gunnleifur og félagar hans í Breiðabliki eiga reyndar bikarleik við ÍBV á sunnudaginn klukkan 16:00 en það er spurning hvort sá leikur verður færður til.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×