Innlent

Hjólaði hringinn með Parkinson

ingvar haraldsson skrifar
Snorri Már Snorrason hjólaði Vestfirðina í sumar þrátt fyrir að hafa barist við Parkinson undanfarin áratug.
Snorri Már Snorrason hjólaði Vestfirðina í sumar þrátt fyrir að hafa barist við Parkinson undanfarin áratug. mynd/skemmtiferðin
Snorri Már Snorrason greindist með Parkinson sjúkdóminn fyrir tíu árum síðan. Þrátt fyrir að hafa oft fengið skilaboð um að hann ætti að fara sér rólega hreyfir Snorri sig daglega. „Ég mæti alla daga í ræktina klukkan hálf sjö og er búinn með tveggja tíma prógramm áður en ég mæti í vinnuna. Tölfræðin segir mér að ég eigi að vera verri en ég er en ég vona að aðrir sjái hvað þetta gerir mér gott.“

Í sumar hjólaði Snorri Vestfirðina en árið 2012 hjólaði hann hringveginn. Snorri hefur ekki safnað áheitum í formi peninga heldur viljað hvetja fólk til að stunda heilbrigt líferni. „Ég hef reynt að predika fyrir öðrum að hreyfa sig. Til að sýna fólki að þetta sé hægt ákvað ég að hjóla hringinn 2012 og safna áheitum í formi hreyfingar. Ég fór annan hring í sumar um Vestfirðina til að benda fólki á að úr því sem fólk eins og ég getur hreyft sig þá geta það flest allir.“ segir Snorri og bætir við að ferðin hafi verið erfið; rigning og rok gerðu Snorra lífið leitt. „Ég hef sagt að ferðin væri í boði Veðurstofunnar.“

Snorri segir að þrátt fyrir að sjúkdómurinn takmarki hann þá sé hreyfing honum lífsnauðsynleg. „Ég losna við verki af því að hreyfa mig. Ég lenti tvisvar inn á spítala í fyrra út af bakinu og fólk var að segja að ég ætti að fara í skurðaðgerð. En ég og læknarnir voru sammála um að ég ætti að frekar að fara út að hreyfa mig. Verkirnir hafa minnkað mikið síðan þá. Parkinson sjúkdómurinn herjar á bakið á mér og krumpar mig saman en hreyfingin og teygjurnar rétta úr mér og halda mér beinum.“

Parkinson er ekki dauðadómur

Snorri segir sjúkdóminn engan dauðadóm. „Ég hef alltaf sagt að Parkinson fer ekki með mig í gröfina en hann fer með mér í gröfin og það er stór munur þar á.“

Að sögn Snorra ættu allir að hreyfa sig. „Það er sama hvort fólk sé með Parkinson eða heilbrigt. Það er bara virðingarvottur við þá sem eru í hjólastól og aðra sem geta ekki hreyft sig að stunda líkamsrækt“ segir Snorri en hann segir Parkinson sjúkdóminn mjög persónubundinn.

„Ég var ungur þegar ég greinist og hafði mikið baráttuþrek. En það eru fleiri og fleiri rannsóknir sem sýna að fólk með heilabilanir og alzheimer sjúkdóminn getur spornað við þróun sjúkdómsins með því að stunda hreyfingu.“

Snorri mun halda fyrirlestur um hreyfingu og baráttur sína við Parkinson í Laugardalshöll klukkan 17:30 í dag í tilefni af Reykjavíkurmaraþoninu.

Hér að neðan má sjá myndband af ferðalagi Snorra um Vestfirðina í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×