Lífið

Hjálpar til með matjurtarkössunum

Adda Soffía skrifar
Hafsteinn og Steinar vinur hans hjá matjurtakössunum góðu.
Hafsteinn og Steinar vinur hans hjá matjurtakössunum góðu. Vísir/Stefán
„Ég hef unnið með einhverfum lengi og systir mín er einhverf. Mig langaði að leggja mitt af mörkum til þess að aðstoða þau,“ segir Hafsteinn. Í fyrra smíðaði hann matjurtakassa, sem hann seldi til styrktar sambýlinu á Barðastöðum.

„Þetta var rosalega vinsælt og við gátum varla annað eftirspurn,“ segir hann, en ákveðið var að endurtaka leikinn í ár.

Í þetta sinn safnar hann fyrir einhverfan vin sinn, Steinar, sem ætlar til Spánar ásamt aðstoðarkonu sinni. „Ég er með aðstöðu í tvöföldum bílskúr, en er eiginlega búinn að sprengja húsnæðið utan af mér, svo ég auglýsi hér með eftir stærra húsnæði, ef einhver vill hjálpa,“ segir hann og hlær. Efnið í matjurtakassana hefur Hafsteinn fengið gefins frá fyrirtækjum, og kann hann þeim þakkir fyrir. „Þetta eru matjurtakassar, eða varmabox sem þú getur ræktað hvað sem er í, þess vegna á svölunum hjá þér.“

Með kassanum fylgja mold og fræ, og heldur kassinn góðum hita á gróðrinum. Allur ágóði af sölunni rennur í ferðasjóð Steinars, en kassarnir koma í takmörkuðu upplagi. Hafsteinn er þó hvergi nærri hættur eftir þetta verkefni. „Ég er strax farinn að plana næsta verkefni og hver fær að njóta góðs af því, en ég get ekki sagt frá því alveg strax.“ Þeir sem vilja eignast kassa, eða styrkja verkefnið með húsnæði eða efni geta haft samband við Hafstein á matjurtakassar@gmail.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×