Lífið

Hita upp fyrir Damon Albarn

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Fufanu munu rokka sviðið í Lundúnum.
Fufanu munu rokka sviðið í Lundúnum. Frá sveitinni
„Ég er mjög spenntur, þetta verður ógeðslega gaman,“ segir Frosti Gnarr, trommari rokksveitarinnar Fufanu sem mun gera það heldur betur gott í nóvember en hljómsveitin mun hita upp fyrir goðsögnina Damon Albarn í frægasta tónleikasal London, Royal Albert Hall 16. nóvember.

„Þetta er frábært tækifæri.“

Albarn þarf vart að kynna fyrir Íslendingum en hann varð frægur í bretapoppsveitinni Blur og hefur einnig vakið mikla lukku fyrir sveit sína Gorillaz.

Albarn hefur oft dvalið hér á landi en hann keypti sér hús hér á tíunda áratugnum.

Damon Albarn.
Sveitin mun einnig koma fram á klúbbakvöldi Ja Ja Ja Festival, norrænnar tónleikahátíðar sem haldin er í London.

Það verður því fullt að gera hjá sveitinni á næstunni þar sem hún vinnur nú einnig að því að leggja lokahönd á fyrstu plötu þeirra í fullri lengd, sem kemur út hjá plötuútgáfunni One Little Indian. Höfuðstöðvar útgáfunnar eru í London og gefur hún út tónlist eftir bæði erlendar og íslenskar sveitir svo sem Samaris, Ásgeir Trausta, Ólöfu Arnalds og Björk.  

Fufanu hefur verið virk frá árinu 2009, þegar hún hét Captain Fufanu. Þeir hafa spilað á Hróarskeldu og Primavera tónlistarhátíðunum ásamt því að troða upp á klúbbum í Þýskalandi, Noregi og að sjálfsögðu Íslandi.

Þeir spiluðu teknó til að byrja með en í fyrra fengu þeir Frosta sem trommara og hefur sveitin því verið að færa sig meira í átt að einhvers konar sveimkenndu eyðimerkurrokki með raftónlistaráhrifum. 







Fleiri fréttir

Sjá meira


×