Tónlist

Herra Hnetusmjör gefur út plötu á afmælisdaginn sinn

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Herra Hnetusmjör hitaði upp fyrir Snoop Dogg í síðasta mánuði.
Herra Hnetusmjör hitaði upp fyrir Snoop Dogg í síðasta mánuði.
Rapparinn Herra Hnetusmjör, ætlar að halda upp á afmælið sitt, þann 31. ágúst,  á óhefðbundinn hátt. Hann mun þá gefa út sína fyrstu breiðskífu og halda tónleika á prikinu um kvöldið. Mikill uppgangur hefur verið á tónlistaferli Herra Hnetusmjörs undanfarin misseri; Hann er nýkominn frá Benedorm þar sem hann skemmti íslenskum framhaldasskólanemum í útskriftaferð og hefur spilað á víða í sumar. „Markmiðið er að hafa einungis slagara á plötunni,“ segir hann ákveðinn og heldur áfram: „Við viljum ekki hafa nein lög sem gætu talist sem einhverskonar uppfylling.“ Hann vill að hægt verði að setja plötuna á fóninn í partíum og láta hana renna alla í gegn.

Atlanta-framburður

Titill plötunnar verður Flottur skrákur. „Titillinn vísar til þess að ég er flottur gaur og nettur náungi. Stafsetningin vísar til einskonar Atlanta-framburðar á orðinu strákur og má segja að það sé birtingarmynd þess sem við stöndum fyrir; eitthvað nýtt og í takti við það nýja sem er að gerast í Bandaríkjunum.“

Herra Hnetusmjör hefur unnið mikið með Jóhanni Karlssyni, sem gengur undir nafninu Joe Frazier. Engin undantekning verður á samstarfi þeirra, því Jóhann gerir alla taktana á plötunni og rappar í fjórum af þeim tíu lögum sem plötuna prýða. Bróðir Jóhanns, Karl Ingi Karlsson, sér um gerð plötuumslagsins.

Herra Hnetusmjör heldur upp á afmælið með nýstárlegum hætti.
Verður gefins

Herra Hnetusmjör mun hreinlega gefa plötuna sína, á nítján ára afmælisdaginn sinn. „Fólk mun geta nálgast hana á netinu. Á Youtube, SoundCloud og svo er stefnan að hún komi inn á Spotify og á tónlist.is. „Ég vil að fólk fái að heyra tónlistina mína án endurgjalds,“ segir Herra Hnetusmjör og bætir því við að hann vonist til þess að tónlist hans fái fólk til að mæta á tónleika. Hann er þekktur fyrir líflega sviðsframkomu, enda orðinn þaulvanur á sviði, hafandi spilað víða um landið að undanförnu. 

Óhætt er að segja að lítið hafi farið fyrir því að Herra Hnetusmjör ætlaði sér að gefa út plötu. Hann hefur sent frá sér nokkur lög síðustu mánuði, sem hafa notið mikilla vinsælda. „Við byrjuðum að vinna í fyrstu lögunum, sem verða á plötunni, í febrúar. Í byrjun sumars ákváðum við svo að gefa út plötu og ákvað ég að hún kæmi út á afmælisdaginn minn. Nú eru öll lögin tilbúin og á bara eftir að „mastera“ plötuna,“ útskýrir hann



Ein af vonarstjörnunum


Fjallað var um Herra Hnetusmjör í Fréttablaðinu í maímánuði. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann skipað sér á sess með vinsælustu röppurum landsins. Hann hefur spilað mikið með Erpi Eyvindarsyni, enda báðir úr Kópavogi. Í geininni voru nokkrir af reynsluboltunum í íslensku rappi ynntir eftir áliti sínu á Árna. Menn voru sammála um að þarna væri einn af bestu ungu röppurum landsins á ferð, ein af vonarstjörnum rappsins hér á landi.

Herra Hnetusmjör tilheyrir hópnum Kópboisentertainment, sem er skammstafað KBE. Hann vakti fyrst athygli með laginu Elías, sem kom út í febrúar 2014. Alls hefur verið hlustað á lögin hans í rúm 212 þúsund skipta á Youtube.  

Hér að neðan má heyra tvö vinsæl lög með Herra Hnetusmjöri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×