Innlent

Helgi kemur heim

Birta Björnsdóttir skrifar
Á laugardaginn kemur stígur San Francisco ballettinn í fyrsta sinn á fjalir Hörpu en sýningin er hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Það er Sinfóníuhljómsveit Íslands sem leikur undir á sýningunni.

„Þetta er alveg stórkostlegt hús og okkur hlakkar til að dansa hérna," segir Helgi.

Helgi hefur ferðast með flokkinn sinn víða um heim en segir alltaf fylgja því sérstaka tilfinningu að koma heim.

„Það er alltaf gaman að koma heim og dansararnir eru yfir sig hrifnir að koma hingað. Bæði þau sem eru að koma í fyrsta sinn og þau sem hafa komið áður," segir Helgi.

Helgi segir dansflokkinn dansa mest í nútíma klassískum stíl og áhorfendur fái að sjá brot af því besta sem dansflokkurinn hefur uppá að bjóða.

„Ég ætla að bjóða upp á prógramm sem ég myndi bjóða upp á hvar sem er í heiminum. Þetta eru yfirleitt um hálftíma langir ballettar sem við erum þekkt fyrir út um allan heim. Það fyrirkomulag er mjög vinsælt, sérstaklega í Bandaríkjunum," segir Helgi.

„Fólk fær á sýningunni yfirsýn yfir þá stíla sem við dönsum mest."

Helgi hefur staðið í brúnni í rúmlega 30 ár hjá þessum virta og heimsþekkta dansflokki. Og hann er hvergi hættur.

„Ég verð eitthvað ennþá allavega. Samningurinn minn við dansflokkinn gildir í tvö ár í viðbót og þeir eru þegar farnir að nefna það við mig að þeir vilji framlengja hann. Við sjáum til hvernig mér líður á þeim tíma," segir Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×