Lífið

Helga finnst rigningin góð en sólin eltir hann

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Helgi Björnsson er ávallt sólarmegin í lífinu og hefur litlar áhyggjur af rigningu. Honum finnst rigningin samt góð.
Helgi Björnsson er ávallt sólarmegin í lífinu og hefur litlar áhyggjur af rigningu. Honum finnst rigningin samt góð. vísir/valli
„Rigning er ekkert að bögga mig því ég er alltaf sólarmegin í lífinu,“ segir tónlistarmaðurinn Helgi Björnsson, en hann söng jú lagið, Húsið og ég, en í viðlagi lagsins er sungið „Mér finnst rigningin góð“.

„Ég skal alveg viðurkenna að brandarinn er eiginlega hættur að virka en fólkið tekur alltaf undir þó svo að það hafi rignt mikið í sumar. Ég skil þó vel að fólk sé orðið þreytt á þessari rigningu.“

Helgi verður á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum á sunnudagskvöld og gera má því ráð fyrir blíðviðri á eyjunni fögru þann daginn í það minnsta.

„Það verður ekki rigning fyrst ég er þarna, það verður samt smá vindur, það er bara gott að láta lofta aðeins um heilabúið.“ Hann kemur þar fram með Fjallabræðrum en þetta er í fyrsta sinn sem hann kemur fram með bræðrunum. „Ég hef ekki sungið með þeim áður en þetta verður „legendary“. Það verður rosalegt að hafa fimmtíu til sextíu karlpunga syngjandi fyrir aftan sig.“

Hann hlakkar mikið til Þjóðhátíðarinnar en ætlar hann að taka lagið fræga?

„Jú, ég geri nú ráð fyrir því, það verður sérstaklega skemmtilegt að taka því það verður engin rigning,“ segir Helgi.

Rigning hefur angrað margan Íslendinginn þetta sumarið, enda sumarið eitt það vætusamasta í mannaminnum. „Ég var að ganga á Hornströndum fyrir skömmu í miklu blíðviðri, en áður en ég fór þangað hafði rignt þar í þrjár vikur. Veðrið var það gott að flugurnar voru næstum búnar að naga af mér eyrun,“ segir Helgi og hlær.

Hann segist reyna að forðast það að vera í Reykjavík yfir sumartímann. Ætli það sé ástæðan fyrir því að mikið rignir í Reykjavík í sumar?„Það er spurning, sólin virðist elta mig hvert sem ég fer,“ bætir Helgi við léttur í lundu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×