Innlent

Heitt vatn flæðir upp úr götum í vesturbæ Reykjavíkur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Viðgerðarmenn að störfum við Skólavörðuholt.
Viðgerðarmenn að störfum við Skólavörðuholt. vísir/stefán
Varað er við slysahættu þar sem heitt vatn streymir upp úr götum í vesturbæ Reykjavíkur. Tilkynningar um slíkt hafa borist á Freyjugötu og Ásvallagötu. Fólk er beðið um að fara að öllu með gát. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Búið er að loka svæðum og tryggja aðstæður á þeim stöðum þar sem vatn streymir upp úr götum. Einnig hefur orðið vart við leka í kjöllurum húsa í miðborginni. Orkuveitan beinir þeim tilmælum til fólks sem býr í vesturbænum, Þingholtum, Skólavörðuholti og miðbænum að hafa skrúfað fyrir alla heitavatnskrana.

Ástæðan fyrir ástandinu er að vegna viðgerðar á loka í dælustöð í Öskjuhlíð féll þrýstingur niður á heitu vatni á svæðinu. Í framhaldi af því sprungu heitavatnslagnir í nokkrum götum.

Ef fólk verður vart við að heitt vatn nái upp á yfirborð í götum er bent á að hafa samband við þjónustuvakt Orkuveitunnar í síma 516-6200.

Uppfært 12.42. Vegna bilunar á hitaveitu við Njarðargötu / Lokastíg verður að öllum líkindum heitavatnslaust á Skólavörðuholtinu og á einhverjum svæðum í miðborginni í dag. Mögulega verða breytingar á þrýstingi annars staðar á meðan.

Unnið er að viðgerð og eru á þriðja tug viðgerðarmanna að störfum.

 

mynd/orkuveitan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×