Íslenski boltinn

Heiðar Helguson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Þrótt í 20 ár í gærkvöldi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heiðar Helguson, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í fótbolta, reif skóna fram úr hillunni í gærkvöldi og spilaði með Þrótti á móti KV í B-deild Fótbolti.net-mótsins.

Heiðar gerði gott betur en bara að spila því hann skoraði fyrra mark Þróttar í 3-2 tapi gegn vesturbæjarliðinu. Þetta er fyrsta markið sem Heiðar skorar fyrir Þrótt í tæp 20 ár eða síðan hann skoraði eina mark liðsins í 5-1 tapi fyrir FH í 1. deildinni haustið 1997.

Eftir tímabilið 1997 fór Heiðar í atvinnumennskuna en á 16 ára löngum atvinnumannaferli spilaði Dalvíkingurinn með Lilleström, Watford, Fulham, Bolton, QPR og Cardiff. Hann lagði skóna á hilluna árið 2013 en spilaði tvo leiki með SR, venslafélagi Þróttar, í 4. deildinni árið 2015.

Það er ekki leiðinlegt að skoða leikskýrsluna úr leiknum frá 1997 en þar er Heiðar að spila með mönnum á borð við Þorsteini Halldórssyni, núverandi þjálfara kvennaliðs Breiðabliks, Willum Þór Þórssyni, núverandi þjálfara KR, og Þróttaragoðsögnum á borð við Ingvari Þór Ólasyni og Páli Einarssyni. Í liðinu þá voru einnig tveir flottir fótboltamenn sem nú eru látnir; Einar Örn Birgisson og Sigurður Hallvarðsson.

Þróttur tekur bæði þátt í Reykjavíkurmótinu og Fótbolti.net-mótinu og voru gamlar kempur rifnar í gang til að hjálpa liðinu í gær. Þróttur er búinn að tapa báðum leikjum sínum í Fótbolti.net-mótinu og öllum í Reykjavíkurmótinu en liðið vann síðast leik í undirbúningsmóti í mars 2015.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×