Innlent

Hefja stórátak í kortlagningu hafsbotnsins í kringum Ísland

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra. Vísir/Vilhelm
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hefja stórátak í kortlagningu hafsbotnsins innan íslensku efnahagslögsögunnar. Þetta er gert að tillögu Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir að kortlagningin muni styrkja stöðu Íslands sem ábyrg fiskveiðiþjóð og geti skapað mikið markaðsgildi fyrir íslenskar sjávarafurðir. „Þá mun kortlagningin verða mikilvæg undirstaða þegar kemur að því að skipuleggja nýtingu og vernd haf- og strandsvæða.“

Við framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2017 mun ríkisstjórnin leggja til við þingið að tryggt verði fjármagn til verkefnisins í fjárlögum þess árs á grundvelli tíu til fimmtán ára verkáætlunar sem tilbúin verði í upphafi nýs árs. „Hafrannsóknastofnun mun sjá um úthald skipa, mælingar og frumúrvinnslu þannig að öll gögn verði aðgengileg stofnunum, háskólum og atvinnulífinu í landinu.

Íslenska efnahagslögsagan er um 754.000 km² eða rúmlega sjöfalt stærri en sem nemur flatarmáli landsins. Kortlagning hafsbotnsins er því umfangsmikið verkefni sem sinna þarf sérstaklega, en að óbreyttu mun taka marga áratugi að kortleggja allan hafsbotninn. Slíkt er ekki viðunandi í ljósi þess hve verkefnið er brýnt og skiptir miklu máli fyrir rannsóknir og hagsmuni Íslendinga á fjölmörgum sviðum,“ segir í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×