Innlent

Hávaði barst frá árshátíð Alcoa

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Björn Ingimarsson
Björn Ingimarsson
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur borist kvörtun um hávaða vegna árshátíðar Alcoa í mars sem haldin var í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. „Þetta er ekkert stórmál og snýr fyrst og fremst að skemmtanahaldi almennt í húsinu. Kvörtunin barst frá aðila sem býr ekki langt frá. Hans hugmynd snýr að því hvort ekki sé hægt að leysa málin þannig að skemmtanahaldið byrji fyrr og því ljúki fyrr,“ segir Páll Sigvaldason, formaður menningar- og íþróttanefndar. Árshátíð Alcoa mun hafa staðið til klukkan tvö að nóttu.

Páll bendir á að þar sem um íþróttahús sé að ræða en ekki skemmtistað séu dyr hafðar opnar og þess vegna heyrist meira frá skemmtanahaldinu en ella. „Svo er verið að ganga frá fram eftir nóttu þar sem íþróttahúsið er tekið í notkun strax morguninn eftir.“

Björn Ingimarsson bæjarstjóri segir að athugasemdum verði komið á framfæri við þá sem halda árshátíðir og íbúum greint frá skemmtunum með fyrirvara. „Menn hafa þá þetta í huga næst þegar svona hátíðir verða haldnar svo að þetta þurfi ekki að pirra nágrannana. Það er full ástæða til að skoða þetta þegar bent er á að þetta megi betur fara.“

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa, segir fyrirtækinu ekki hafa borist formlegt erindi vegna málsins. „Þegar það kemur munum við bregðast við því. Okkur þykir leiðinlegt ef íbúar hafa orðið fyrir ónæði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×