Innlent

Harðar kjaradeilur í vændum

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Vísir/Daníel
Alþýðusamband Íslands telur engan grundvöll fyrir frekara samstarfi við ríkisstjórnina verði fjárlagafrumvarpið að lögum. Yfirlýsingin kemur Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra á óvart.



„Þetta kemur mér á óvart, sérstaklega í ljósi þess hversu mikill ávinningur er að verða í efnahagslífinu á þessu ári. Við erum að ná mörgum settum markmiðum, halda verðbólgu lágri, skapa ný störf, tryggja aukinn kaupmátt launa og loka fjárlagagatinu. Allt er þetta grundvöllur að bættum kjörum í landinu,“ segir Bjarni.

ASÍ segir að félagsmenn aðildarfélaganna verði að búa sig undir harðari deilur við gerð kjarasamninga en verið hafa um áratugaskeið.

Launafólk, sér í lagi lágtekjufólk og lífeyrisþegar, hafi á síðustu árum tekið á sig miklar byrðar og kaupmáttur launa hafi skerst. Á sama tíma hafi verið skorið verulega niður í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu sem leitt hafi til meiri greiðsluþátttöku, minni þjónustu og meira óöryggis. Launþegar eigi því inni þegar rofi til í þjóðfélaginu.

„Hjá okkur standa dyrnar ávallt opnar,“ segir Bjarni þegar hann er spurður hvort komi til greina að breyta fjárlagafrumvarpinu til að koma til móts við gagnrýni ASÍ.

Hann segir að stjórnvöld vilji eiga gott samstarf við launþegahreyfinguna og raunar alla aðila vinnumarkaðarins.

„Að sjálfsögðu er það grundvöllur slíks samstarfs að hlusta eftir sjónarmiðum og við munum kynna okkur vel þær áherslur sem launþegahreyfingin vill berjast fyrir. En viljum um leið að menn taki tillit til þess árangurs sem hefur náðst,“ segir Bjarni.

Samtök atvinnulífsins taka undir með ASÍ og telja að samstarf við stjórnvöld megi vera betra. „Við getum tekið að hluta til undir þá gagnarýni að samstarf og samráð á milli aðila vinnumarkaðarins mætti vera betra. Þar má ýmislegt gera til að bæta úr,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×