Innlent

Haldlagning lögreglu á tveimur vínflöskum bótalaus

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Maðurinn hafði haldið upp á afmæli sitt á Gauki á Stöng.
Maðurinn hafði haldið upp á afmæli sitt á Gauki á Stöng. vísir/pjetur
Íslenska ríkið var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknað af kröfu manns um miskabætur. Maðurinn hafði farið fram á bætur eftir að lögreglumenn gerðu upptækar tvær vínflöskur í hans eigu.

Atvik málsins voru þau að maðurinn hafði haldið upp á afmæli sitt á Gauki á Stöng í febrúar 2013. Þangað mætti hann með tvær vínflöskur, sem hann hafði fengið að gjöf, og bað dyraverði um að geyma flöskurnar. Þegar hann fór út af staðnum stöðvuðu lögreglumenn hann og töldu að hann hefði farið með flöskurnar út af staðnum. Hald var lagt á flöskurnar þar sem enginn dyravarða staðarins kannaðist við að hafa geymt flöskurnar. Rannsókn lögreglu á meintu broti á áfengislöggjöf var hætt án ákæru.

Maðurinn taldi að engin sérstök ástæða hefði legið að baki því að lögregla hafði afskipti af honum umrætt kvöld. Það hafi margoft gerst að lögregla hafi truflað hann að ástæðulausu og það ætti við í þessu tilfelli. Maðurinn taldi miskabætur að upphæð einni milljón króna vera hóflegar.

Í niðurstöðu dómsins sagði að óumdeilt væri að flöskurnar hefðu verið í eigu mannsins en hann fékk þær afhentar rúmri viku eftir að rannsókn var hætt. Dómurinn taldi að aðgerðir lögreglu hefðu valdið manninum ónæði en ekki væri sannað að um nokkurn miska væri að ræða. Því var ekki fallist á bætur.

Maðurinn naut gjafsóknar við rekstur málsins. Kostnaður af rekstri þess greiðist því af ríkinu en þar á meðal er 300.000 króna þóknun til lögmanns mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×