Tónlist

Hafði áður flutt sigurlagið í Eurovision opinberlega

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jamala með verðlaunagripinn í Eurovision.
Jamala með verðlaunagripinn í Eurovision. vísir/getty
Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fregna af því að sigurlagið í keppninni í ár 1944 í flutningi úkraínsku söngkonunnar Jamölu hafi áður verið flutt opinberlega.

Samkvæmt reglum keppninnar mega nefnilega lög sem taka þátt í Eurovision ekki hafa verið flutt opinberlega fyrir 1. september árið áður en keppnin fer fram en úkarínska lagið var flutt opinberlega í landinu í maí í fyrra.

Í tilkynningu frá Eurovision segir að þetta hafi ekki áhrif á úrslit keppninnar í ár þar sem myndband af flutningnum, sem hafi verið á fámennum tónleikum, hafi ekki farið í mikla dreifingu og tiltölulega fáir séð það.

Því hafi þessi spilun ekki gefið Úkraínu ósanngjarnt forskot. Þá séu jafnframt fordæmi séu fyrir því í keppninni að lög sem hafi verið spiluð opinberlega áður en fyrir fáa áheyrendur hafi fengið að taka þátt í Eurovision.

Í athugasemd við yfirlýsingu á Facebook-síðu Eurovision segir einn notandi að ekki hafi verið um fámenna eða litla tónleika að ræða. Þvert á móti hafi lagið verið sýnt í úkraínska ríkissjónvarpinu og forseti Úkraínu sagt að lagið hafi sent frábær pólitísk skilaboð.

Rússar eru afar ósáttir við sigur Úkraínu en lagið fjallar um Stalín, Krímsaga og þjóðernishreinsanir á því svæði. Jamala er Tartari en hún tileinkaði lagið langömmu sinni og fimm börnum hennar sem voru flutt af sovéskum hermönnum frá Krímskaga.

Fyrir keppnina höfðu Rússar farið fram á að Jamölu yrði bannað að flytja lagið í keppninni því það innihélt pólitískan boðskap, sem er bannað samkvæmt reglum Eurovision-keppninnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×