Innlent

Hafa safnað rúmum 30 milljónum í styrki á þremur árum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Róbert Wessman verður í ítarlegu viðtali í Fréttablaðinu og á Vísi á morgun.
Róbert Wessman verður í ítarlegu viðtali í Fréttablaðinu og á Vísi á morgun. Vísir/Vilhelm
„Þetta byrjaði þegar við sátum og horfðum á fréttirnar og þá voru miklir þurrkar í Sómalíu og við fórum að velta fyrir okkur hvernig við gætum hjálpað,“ segir Róbert Wessman, forstjóri Alvogen um styrktarsjóð fyrirtækisins Better Planet.

Sjóðurinn varð til árið 2011 þegar starfsmenn fyrirtæksins skoruðu á Róbert að taka þátt í þríþrautum með stuttu millibili. Áskorunum starfsmannana fylgdu áheiti sem runnu til góðgerðamála.

Róbert segist hafa þurft að æfa nokkuð stíft fyrir þríþrautakeppnirnar tvær, sem hann tók þátt í. Keppnirnar fóru fram í Bandaríkjunum og Þýskalandi. „Ég hef alltaf verið í nokkuð góðu formi, en þegar ég fékk áskorunina þurfti ég að æfa stíft og létta mig svolítið. Svona til þess að komast í keppnisform,“ útskýrir Róbert. Í þríþrautunum keppti hann í hjólreiðum, sundi og hlaupi. Hann ákvað að sækja sundtíma til að bæta tæknina sína enn frekar.

„Þegar upp var staðið komst ég að því að ég var nokkuð góður á hjólinu og fór að leggja mesta áherslu á það,“ segir Róbert. Meiðsli á öxl hjálpuðu líka til við ákvörðunina – að einbeita sér að hjólreiðum – því hann gat ekki synt af sama krafti.

Yfir 30 milljónir safnast

Síðan sjóðurinn Better Planet var stofnaður hafa safnast um 30 milljónir króna. Fyrsta árið fór söfnun sjóðsins fram í gegnum áheiti starfsmanna Alvogen. En síðan hefur sjóðurinn stækkað og hefur söfnunarleiðum fjölgað, til dæmis hafa starfsmenn selt sérstök armbönd og nú nýlega miða á styrktartónleika Alvogen og UNICEF.

Markmið sjóðsins er að gera heiminn að betri stað fyrir börn og er mest áhersla lög á neyðarhjálp við börn í Afríku og menntunarverkefni barna. Hér á landi hefur sjóðurinn stutt félagasamtök á borð við Mænuskaðastofnun Íslands.  Auk þess styrkir sjóðurinn UNICEF.

Alvogen styrkir líka alla flokka knattspyrnudeildar KR auk fjölda góðgerðafélaga á þeim mörkuðum sem fyrirtækið starfarar á.

Neyðarhjálpin í Afríku hefur meðal annars beinst að Sómalíu, Shahel svæðinu og suðurhluta Súdan. Sjóðurinn hefur einnig styrkt verkmenntaskóla í Sierra Leone með Rauða krossinum. Um 450 nemendur hafa útskrifast með stuðningi sjóðsins. Einnig hefur sjóðurinn verið notaður í uppbyggingu skóla fyrir stúlkur í Madagaskar. Þar hafa risið þrjú kennsluhús fyrir tilstuðlan Better Planet.

Lenti í slysi fyrir ári síðan

Það sem í upphafi snerist um áheitasöfnun varð að áhugamáli Róberts því hann varð nánast heltekinn af hjólreiðum. Róbert stundaði þær af miklu kappi frá 2011 til 2013 og tók þátt í mörgum hjólreiðakeppnum. Í undirbúningi fyrir keppni sem kallast Járnmanninn í fyrra lenti hann í alvarlegu slysi, þar sem hann braut meðal annars tvo hryggjaliði. Róbert var þá á um 47 kílómetra hraða þegar hann hjólaði með höfuðið á undan sér, á kyrrstæðan bíl.

Róbert lá meðvitundalaus í götunni eftir slysið. Ítarlegt viðtal við Róbert birtist í Fréttablaðinu og á Vísi á morgun. Í því fer Róbert meðal annars yfir bataferlið eftir slysið.

Hann nálgaðist endurhæfinguna eins og verkefni sem hann leysti með góðri hjálp eiginkonu sinnar. Hann er þakklátur mörgum fyrir hjálpina; fjölskyldu, vinum og samstarfsmönnum sem tóku á sig aukna ábyrgð í hans fjarveru. Hann er nú kominn aftur á fulla ferð og segist ekki hugsa mikið um að hlutirnir hefðu getað endað öðruvísi. „En ég held að bæði ég sjálfur og allir læknar sem önnuðust mig séu sammála um að ég hafi verið einstaklega heppinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×