Skoðun

Hættu að rembast við að selja!

Þóranna K. Jónsdóttir, MBA og markaðsnörd skrifa
Peter Drucker sagði: „Markmiðið með markaðssetningu er að gera sölumennsku óþarfa. Markmiðið með markaðssetningu er að þekkja og skilja viðskiptavininn svo vel að varan eða þjónustan henti honum og selji sig sjálf. Þegar best lætur leiðir markaðssetning til þess að viðskiptavinurinn er tilbúinn til að kaupa.“

Það vill enginn láta trufla sig

Þrátt fyrir það eru alltaf einhverjir sem halda áfram að stunda sölumennsku à la „used car salesmen“. Það eru námskeið í sölumennsku, sölutækni, að loka sölunni og svo framvegis og svo framvegis. Það eru enn einhverjir sem maður hefur aldrei talað við áður að trufla mann með símhringingu frá því að horfa á uppáhaldsþáttinn á kvöldin og enn fólk að leita að netföngum á vefnum og senda tölvupóst til einhverra sem aldrei hafa heyrt um það áður. HÆTTIÐ! Það vill enginn láta trufla sig! Það er enginn tilbúinn að kaupa af þér eftir eitt símtal eða einn tölvupóst sem það vildi aldrei fá til að byrja með!

Og það er dýrt. Ferlega dýrt. John Cleese spurði fyrir hrun af hverju Kaupþing hringdi ekki bara í alla í staðinn fyrir að gera auglýsingar. Hann er grínari! Og þetta var fyrir hrun.

Sambandið skiptir máli

Markaðssetning snýst um að mynda samband. Samband sem verður til þess að fólk verslar við þig aftur og aftur og velur þig fram yfir samkeppnina. Hefðbundnar söluaðferðir eru eins og að labba upp að stelpunni á barnum og biðja hana strax að giftast sér. Hversu líklegt er að hún segi já? Hversu líklegt er að það verði mikið meira úr sambandinu? Hvað með að byrja bara rólega? Kynnast henni, spjalla, fá að vita á hverju hún hefur áhuga og hvers hún þarfnast, deila þeim áhuga með henni og aðstoða hana með það sem hún þarf á að halda. Svolítið líklegra til hjónabands eða hvað? Það er markaðssetning. Eins og Drucker segir, að þekkja og skilja viðskiptavininn og veita honum það sem hentar honum.

„Ég elska Ikea”

Hefurðu nokkurn tímann fengið sölusímtal frá Ikea? Eða óumbeðinn tölvupóst frá Apple? Ruslpóst frá Coke? Neibb, ekki ég heldur. Af hverju? Af því að þau markaðssetja – og eru fáránlega góð í því. Sem er ástæðan fyrir því að þú heyrir jafnvel fólk segja „ég elska Ikea“, „ég elska Apple“, „ég elska kók“ – og ef það er ekki gott samband, þá veit ég ekki hvað!




Skoðun

Skoðun

Al­einn í heiminum?

Lukka Sigurðardóttir,Katrín Harðardóttir ,Margrét Kristín Blöndal skrifar

Sjá meira


×