Innlent

Hætta á nýju skeiði víxlverkana launa og verðlags

Heimir Már Pétursson skrifar
vísir/anton
Sérfræðingur í vinnumarkaðsmálum segir hættu á að Íslendingar séu að sigla inn í nýtt skeið víxlhækkandi verðlags og launa. Ríkisstjórnin hafi gripið til ýmissa aðgerða við gerð síðustu fjárlaga, sem áratuga hefð sé fyrir að ekki sé gert án samráðs við aðila vinnumarkaðarins í tengslum við gerð kjarasamninga.

Í á annan áratug á árunum fyrir gerð þjóðarsáttarsamninganna árið 1990 var mikið um vinnudeilur og laun og verðlag hækkuðu á víxl þannig að verðbólga fór úr böndunum. Öllum var ljóst að þetta ástand gat ekki haldið áfram sem varð til þess að hreyfingar launafólks, atvinnurekenda, bænda og ríkis gerðu með sér samkomulag til að vinna bug á verðbólgunni og svo kölluð þjóðarsátt varð til.

„Það eru ýmis teikn á lofti og viss hætta á því að við missum þessa hluti úr böndunum. Það er mjög mikilvægt að við lærum af reynslunni og skoðum nákvæmlega hvað gerðist þá, þessi víxlverkun luna og verðbólgu. En líka það sem við lærðum af þjóðarsáttarsamningunum 1990. Ég held að það skipti mjög miklu máli að aðilar vinnumarkaðarins, opinberi markaðurinn og almenni vinnumarkaðurinn og ríkisstjórnin reyni að móta nýja þjóðarsátt með einhverjum hætti,“ segir Gylfi Dalmann Aðalsteinsson dósent í viðskptafræðideild Háskóla Íslands, sem er sérfræðingur í vinnumarkaðsmálum.

Mikil þykkja ríkir milli verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins um þessar mundir og sameignlega ríkir mikil óánægja innan beggja hreyfinga með aðgerðir ríkisstjórnarinnar á sumum sviðum og aðgerðarleysi hennar á öðrum sviðum. Andi nýrrar þjóðarsáttar svífur því ekki beinlínis yfir vötnunum.

„Það skiptir miklu máli þá að ríkisvaldið sé tilbúið eins og það var þá, að koma meira að borðinu, með meira afgerandi hætti og opinberi- og almenni vinnumarkaðurinn séu tilbúnir til að fara saman í nýja þjóðarsátt,“ segir Gylfi. Á undanförnum fimmtíu árum hafi þróast visst samráð milli aðila vinnumarkaðrins og ríkisvaldsins sem gefið hafi út yfirlýsingar um ýmsar aðgerðir í tengslum við samninga.

„Forsætisráðherra hefur talað um stöðugleikasamninga, þeir séu tilbúnir til að gera slíkt þegar kjarasamningar liggja fyrir. En þeir verða bara að koma fyrr að borðinu,“ segir Gylfi.

Nú sé veruleg hætta á nýju tímabili með víxlhækkunum verðlags og launa sem erfitt gæti reynst að vinna sig út úr. „Ég tel svo vera. Við munum sjá kjarasamninga gerða til stutts tíma og kjaradeilur og verkföll hugsanlega fyrirsjáanleg.“

Þannig að það er veruleg hætta á því að við séum að fara inn í mikið óstöðugleikatímabil?

„Já, reynslan sýnir okkur það,“ segir Gylfi Dalmann Aðalsteinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×