Innlent

Gyrðir Elíasson hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Gyrðir Elíasson hefur áður hlotið verðlaunin.
Gyrðir Elíasson hefur áður hlotið verðlaunin. Vísir/Anton Brink
Gyrðir Elíasson hlaut í dag Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir Listin að vera einn, þýðingu á ljóðum japanska skáldsins Shuntaro Tanikawa. Verðlaunin afhent í ellefta sinn við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini. Forseti Íslands afhenti verðlaunin. Gyrðir hefur áður hlotið Íslensku þýðingaverðlaunin en þau fékk hann árið 2012 fyrir annað ljóðasafn, Tunglið braust inn í húsið.

„Gyrðir Elíasson er íslenskum lesendum að góðu kunnur, bæði sem skáld og þýðandi, og hefur hlotið margar aðrar viðurkenningar og verðlaun, m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2000 og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2011. Ljóðskáldið Shuntaro Tanikawa (f. 1931) er einnig margverðlaunaður, talinn til merkustu skálda Japan og helstu stórskálda heimsins og því er mikill fengur að því að fá safn af ljóðum hans í vandaðri íslenskri þýðingu,“ segir í tilkynningu frá Bandalagi þýðenda og túlka.

Dómnefnd Íslensku þýðingaverðlaunanna skipuðu Árni Matthíasson, María Rán Guðjónsdóttir og Tinna Ásgeirsdóttir og hafði hún þetta að segja um Listina að vera einn:

„Með þýðingu sinni á ljóðum Shuntaro Tanikawa kynnir Gyrðir Elíasson okkur eitt helsta núlifandi skáld Japana. Tanikawa er meðal annars þekktur fyrir glímu sína við tungumálið og það hvernig hann teygir það og togar, en þó þykir texti hans tær og virðist áreynslulaus líkt og skilar sér í þýðingum Gyrðis á ljóðunum.

Aðrir tilnefndir þýðendur voru Herdís Hreiðarsdóttir fyrir Út í vitann eftir Virginia Woolf, Hermann Stefánsson fyrir Uppfinning Morels eftir Adolfo Bioy Casares, Jón St. Kristjánsson fyrir Náðarstund eftir Hannah Kent og Silja Aðalsteinsdóttir fyrir Lífið að leysa eftir Alice Munro.

Bandalag þýðenda og túlka þakkar dómnefnd fyrir óeigingjarnt og gott starf og ofangreindum úrvalsþýðendum fyrir afbragðsgóðar þýðingar. Einnig óskum við Gyrði Elíassyni innilega til hamingju með Íslensku þýðingaverðlaunin 2015.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×