Íslenski boltinn

Guðrún Karítas gengin í raðir KR

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðrún Karítas í leik með Stjörnunni á móti Þrótti.
Guðrún Karítas í leik með Stjörnunni á móti Þrótti. vísir/ernir
Guðrún Karítas Sigurðardóttir er gengin í raðir KR í Pepsi-deild kvenna í fótbolta en hún kemur til vesturbæjarliðsins frá Stjörnunni þar sem hún hefur verið frá árinu 2015.

Þessi öfluga fótboltastúlka af Skaganum, sem verður 21 árs gömul í ár, sló í gegn með uppeldisfélagi sínu ÍA í Pepsi-deildinni árið 2014 og var kjörin efnilegasti leikmaður efstu deildar. Eftir það var hún fengin til Stjörnunnar.

Guðrún spilaði 17 leiki og skoraði fjögur mörk á fyrra árinu sínu hjá Stjörnunni en spilaði aðeins níu leiki án þess að skora fyrir Garðabæjarliðið á síðustu leiktíð.

Hún á að baki 82 leiki í meistaraflokki og 30 mörk en hún er á fótboltastyrk á UFS Tampa-háskólanum í Flórídaríki.

„Knattspyrnudeild KR lýsir yfir mikilli ánægju með að fá Guðrúnu Karítas í raðir félagsins og bjóða hana velkomna í KR,“ segir á vef KR en hún skrifaði undir tveggja ára samning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×