Innlent

Guðni Th. brýndi fyrir þingmönnum að endurheimta traust á Alþingi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands setti í dag 146. löggjafaþing
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands setti í dag 146. löggjafaþing Vísir/Ernir
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, brýndi fyrir þingmönnum að endurreisa traust almennings á Alþingi í þingsetningarávarpi sínu. 146. löggjafaþing Íslendinga var sett í dag.

Þing er nú sett við óvenjulegar aðstæður en rúmur mánuður er liðinn frá kosningum. Engin ríkisstjórn hefur verið mynduð og í ávarpi sínu minntist Guðni Th. á hvernig fyrri forsetar hefðu glímt við sambærilegar aðstæður.

„Í dag er þess minnst að rétt öld er liðin frá fæðingu Kristjáns Eldjárns en árin 1968 til 1980 má segja að þá hafi verið nær samfelld stjórnarkreppa,“ sagði Guðni Th. og bætti því við að Kristján hefði haft það að leiðarljósi að ekki mætti útiloka neinn flokk frá stjórnarmyndunarviðræðum.

Sagði Guðni að ætla mætti að almenningi hafi þótt það til vansa hve illa þinginu gekk að mynda ríkisstjórnir á þeim árum. Athyglisvert væri þó að Alþingi hefði áfram notið traust almennings. Ekki væri þó hægt að segja það sama í dag.

„Fleira hrundi en bankar,“ sagði Guðni Th. „Fólki fannst þingið hafa brugðist,“ og vísaði Guðni Th. til þess að frá hruninu haustið 2008 hefur traust almennings á Alþingi minnkað mikið og mælst á bilinu tíu til tuttugu prósent.

„Endurheimt trausts er senn möguleg og brýn. Nú er lag að auka vegsemd þingsins og virðingu. Takast vissulega á í þingsal, deila hart ef svo ber undir en bæta vinnubrögðin, viðmótið, reglur og þingsköp.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×