Innlent

Guðni og Halla efst: „Örlagarík og spennandi nótt framundan“

Birgir Olgeirsson skrifar
Halla Tómasdóttir og Guðni Th. Jóhannesson þegar fyrstu tölur voru kynntar.
Halla Tómasdóttir og Guðni Th. Jóhannesson þegar fyrstu tölur voru kynntar.
„Örlagarík og spennandi nótt framundan,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson þegar fyrstu tölur komu úr Suðurlandi en þar er mjög lítill munur á honum og Höllu Tómasdóttur. Þar er Guðni með 36,5 prósent, Halla með 35,0 prósent, Davíð með 14,2 prósent og Andri Snær fjórði með 6,9 prósent.

Guðni sagði að ljóst væri að kosninganóttin verður meira spennandi en kannanir gáfu til kynna og spennandi nótt væri framundan. Hann sagði greinilegt að kannanir síðustu daga væru ekki að gefa upp sömu stöðu og er og það hafi komið á óvart því kannanir hafi hingað til verið í takt við úrslit kosninga.

„Þetta kemur mér á óvart,“ sagði Halla og sagði þetta ánægjulega niðurstöðu og hún væri þakklát fólki í Suðurkjördæmi. Hún sagðist horfa bjartsýn fram á veginn. Davíð Oddsson sagði þetta vera merkilegar tölur og þær væru flottar fyrir Guðna og Höllu.

Niðurstaðan með Höllu kæmi vissulega á óvart en hann sagði þetta vera glæsilega niðurstöðu fyrir þau tvö. Spurður hvort þetta væri ekki mikill ósigur fyrir hann, hafandi aldrei tapað kosningum ,sagði hann ekki hægt að taka sína fyrri sigra til baka, hann ætti þá sama hvað.

Í Suðvesturkjördæmi er Guðni efstur með 10.750 atkvæði en Halla með 8.150 atkvæði. Guðni sagðist anda rólegra eftir að hafa séð þessar tölur, þær væru meira í takt við skoðanakannanir.  Hann sagðist hafa kannski verið full varkár á lokaspretti baráttunnar og það skýri kannski fylgistapið miðað við kannanir.

Halla sagði merkilegast við þetta að hún hafi verið spurð þegar hún mældist með lítið fylgi hvort hún ætlaði ekki að hætta og að þetta sýndi að þjóðin vildi ekki skoðanakannanir heldur að fá að kjósa á milli frambjóðenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×