Lífið

Guðni leikur sjálfan sig óvart

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Guðni Ágústsson hefur mikla reynslu sem skemmtanastjóri og fór létt með hlutverkið í Afanum.
Guðni Ágústsson hefur mikla reynslu sem skemmtanastjóri og fór létt með hlutverkið í Afanum. Mynd/Skjáskot
„Ég hef svolitla æfingu sem leikari eftir að hafa verið í pólitíkinni, maður þarf stundum að leika aðeins á þeim vettvangi,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, en hann er óvænt á leið á hvíta tjaldið. Um er að ræða hlutverk í kvikmyndinni Afanum sem tekin er upp að hluta á Kanaríeyjum. „Ég var staddur á Kanarí sem skemmtanastjóri fyrir ferðaskrifstofuna Vita og vissi bara af því að það væri verið að taka upp kvikmynd þarna en þegar ég fór út hafði ég ekki hugmynd um að ég væri að fara að leika í henni,“ segir Guðni, en hann sat einmitt í sömu flugvél og aðstandendur myndarinnar á leiðinni út og varð fyrst var við fólkið þá.

Guðni leikur í raun sjálfan sig í myndinni. „Guðni Ágústsson er mjög sannfærandi sem Guðni Ágústsson og leikur sjálfan sig mjög vel. Hann slær líklega Jóhannesi Kristjánssyni eftirhermu við,“ segir Bjarni Haukur Þórsson, leikstjóri myndarinnar, um frammistöðu fyrrverandi ráðherrans.

Guðni er skemmtanastjóri í kvikmyndinni og á stórleik þrátt fyrir að hafa ekki haft hugmynd um að hann myndi lenda á hvíta tjaldinu þegar verið var að taka upp atriðið. „Ég er bara ég sjálfur og var til dæmis ekkert sminkaður og fékk enga leikstjórn, þannig að ég bíð spenntur og á eflaust eftir að roðna þegar að ég sé myndina,“ segir Guðni glaður í bragði.

Hann hefur þó ekki einungis leikið á hinu pólitíska sviði, því hann var frægur héraðsleikari á árum áður. „Í Héraðsskólanum á Laugarvatni lék ég til dæmis mæta menn á borð við Lykla-Pétur, Jón Hreggviðsson og Svart þræl í Nýársnóttinni og drap þar kónginn og fékk mikla athygli. Ég hafði alveg hugsað mér að verða leikari en ég valdi mér stjórnmálin.“

Bjarni Haukur hefur þó orð á því hve vel Guðni lítur út. „Hann var ekki bara ótrúlega skemmtilegur heldur einnig í hörku formi og var þræltanaður,“ segir Bjarni um Guðna. „Ég er í World Class, geng á fjöll og syndi, þannig að ég er orðinn léttur frá því sem var, frá því ég var í pólitíkinni. Annars fer ég ekki í ljós þannig að tanið kemur bara af útivistinni,“ bætir Guðni við. Hann fer einu sinni á ári sem skemmtanastjóri til Kanaríeyja og kann vel við sig þar. „Þar er mjög gaman að vera með þessum skemmtilegu Íslendingum, við spilum til dæmis framsóknarvist, mínígolf og bingó og hlæjum mikið,“ segir Guðni.

Afinn verður frumsýndur 25. september í kvikmyndahúsum land allt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×