Innlent

Guðni hefði sigrað Höllu en naumlega þó

52 prósent hefðu kosið Guðna en 48 prósent Höllu.
52 prósent hefðu kosið Guðna en 48 prósent Höllu.
Ef valið hefði einungis staðið milli Guðna Th. Jóhannessonar og Höllu Tómasdóttur í nýafstöðnum forsetakosningum hefði Guðni sigrað, en naumlega þó. 52 prósent hefðu kosið Guðna en 48 prósent Höllu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá MMR sem efndi til könnunar þar sem spurt var hvern Íslendingar væru líklegastir til að kjósa sem forseta ef að haldin yrði önnur umferð í forsetakosningum þar sem valið stæði á milli tveggja efstu frambjóðendanna.

Talsverð umræða var um það í tengslum við forsetakosningarnar að ákjósanlegt væri að tvöfalt kerfi væri við lýði, fræðilega er hægt að ná kjöri með til þess að gera lágri prósentutölu atkvæða. Mikilvægt sé fyrir forseta að hafa meirihluta kjósenda að baki sér þannig að óyggjandi sé. Könnun MMR gefur vísbendingu um að Guðni, verðandi forseti íslenska lýðveldisins, geti litið svo á.

Könnunin var framkvæmd dagana 27. júní til 4. júlí 2016 og var heildarfjöldi svarenda 924 einstaklingar, 18 ára og eldri. Guðni hlaut meiri stuðning meðal þeirra sem eldri eru en Halla höfðaði meira til þeirra sem yngri eru meðal svarenda. Þá kemur jafnframt fram að þeir sem sögðust styðja Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk voru líklegri til að styðja Höllu en þeir sem sögðust styðja Samfylkingu, Vinstri-græn, Pírata og Bjarta framtíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×