Innlent

Grunnur lagður að nýju húsnæðiskerfi

Kolbeinn Óttar Proppé skrifar
Reistar verða 2.300 félagslegar leiguíbúðir á árunum 2016 til 2019, þó aldrei meiri en 600 á ári.
Reistar verða 2.300 félagslegar leiguíbúðir á árunum 2016 til 2019, þó aldrei meiri en 600 á ári.
eygló harðardóttir
Eygló Harðardóttir, ráðherra húsnæðismála, kynnti í gær umfangsmiklar aðgerðir í húsnæðismálum. Reisa á 2.300 félagslegar íbúðir á næstu fjórum árum og gjörbylta kerfi húsnæðisbóta. „Við erum að leggja grunninn að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi,“ segir Eygló.

Tillagnanna hefur verið beðið um nokkra hríð, en þær eru afrakstur samvinnu ríkisstjórnarinnar við Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og fjölda verkalýðsfélaga. Þær eru kynntar sem aðgerðir til að leysa deilur á vinnumarkaði.

Markmið tillagnanna er að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma. Félagslega leigukerfið verður fjármagnað með stofnfjárframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum sem nema um 30 prósentum af núvirtum stofnkostnaði. Slíkt framlag á að leiða til þess að leiga fólks með lágar tekjur verði ekki hærri en 20 til 25 prósent af tekjum, en í dag þekkjast dæmi um að hún nemi á bilinu 50 til 70 prósentum af tekjum þeirra launalægstu.

Íbúðirnar 2.300 verða reistar á árunum 2016 til 2019, þó aldrei fleiri en 600 á ári.

Fara á í endurskoðun lagaumhverfis, þar með talið byggingareglugerðar og skipulagslaga. Tekinn verður inn nýr flokkur mannvirkja sem mun auðvelda byggingu smærri og ódýrari íbúða. Þá verður gjaldtaka sveitarfélaga vegna lóða og gatnagerðar skoðuð til að lækka byggingarkostnað.

Sérstakur stuðningur verður við efnaminni leigjendur á almennum leigumarkaði og húsnæðisbætur hækkaðar. Þá verður komið til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð með því að gera sparnað til íbúðakaupa skattfrjálsan.

„Ég held að það sé óhætt að fullyrða það að við höfum ekki tekið jafn stór skref sem tengjast uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis hér á Íslandi í um 50 ár. Þá var farið í mikið átak. Við erum að gera enn betur núna,“ segir Eygló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×