Íslenski boltinn

Grindavík og HK/Víkingur síðustu liðin inn í sextán liða úrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
HK/Víkingur komst í kvöld í 16 liða úrslit.
HK/Víkingur komst í kvöld í 16 liða úrslit. Vísir/Anton
B-deildarliðin Grindavík og HK/Víkingur tryggðu sér í kvöld sæti í sextán liða úrslitum Borgunarbikars kvenna í fótbolta og verða því í pottinum þegar dregið verið á morgun.

Grindavík og HK/Víkingur komust í gegnum 2. umferðina ásamt fjórum öðrum 1. deildarliðum. Bæði lið hafa unnið tvo bikarleiki á tímabilinu og þá báða á útivelli.

Grindavík vann 4-0 sigur á Aftureldingu á Varmá í Mosfellsbænum.  Sashana Carolyn Campbell skoraði tvö af mörkum liðsins en hún skoraði þrennu í 9-0 sigri á Gróttu í fyrsta leik liðsins í 1. deildinni. Dröfn Einarsdóttir og Sara Hrund Helgadóttir skoruðu hin mörk Grindavíkurliðsins í leiknum.

Þórhildur Stefánsdóttir afgreiddi ÍR-liðið með því að skora bæði mörkin þegar HK/Víkingur vann 2-1 sigur á ÍR á Hertz vellinum í Mjóddinni. Þórhildur er búin að skora í báðum bikarsigrinum HK/Víkingsliðsins til þessa í sumar. Andrea Magnúsdóttir minnkaði muninn fyrir ÍR.

Sameiginlegt lið HK og Víkings hefur unnið þrjá fyrstu leiki tímabilsins en Jóhannes Karl Sigursteinsson, fyrrum þjálfari Breiðabliks og Stjörnunnar í úrvalsdeild kvenna, tók við þjálfun liðsins fyrir þetta tímabil.

Liðin sem verða í pottinum þegar dregið verður í hádeginu á morgun:

Pepsi-deild kvenna (10): Stjarnan, Breiðablik, FH, ÍBV, Þór/KA, Selfoss, Valur, Fylkir, KR og ÍA.

1. deild kvenna (6): Þróttur R., Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir, Keflavík, Haukar, HK/Víkingur og Grindavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×