Lífið

Greta semur tónlist fyrir Disney

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Tónlistarkonan Greta Salóme semur tónlist fyrir næsta verkefni hjá Disney.
Tónlistarkonan Greta Salóme semur tónlist fyrir næsta verkefni hjá Disney.
Tónlistarkonan Greta Salóme Stefánsdóttir undirbýr sig nú af kappi fyrir sín næstu verkefni hjá Disney og er hún meðal annars að semja tónlist fyrir fyrirtækið.

„Ég er núna um borð í sama skipi og ég hef verið að undirbúa mig fyrir næstu verkefni. Það er búið að ganga ótrúlega vel og þetta hefur farið fram úr öllum væntingum,“ segir tónlistarkonan Greta Salóme.

Hún hefur nú komið fram á einu stærsta skemmtiferðaskipi Disney-fyrirtækisins sem kallast Disney Dream en það tekur um 4.000 farþega og siglir á milli Flórída og Bahama-eyja.

Næsta verkefni sem Greta vinnur fyrir Disney er stórt í sniðum en hún má þó ekki tjá sig of mikið um það. „Ég er nú að semja fyrir það verkefni og vinna í stúdíóinu. Þetta er stórt verkefni og ég er að vinna með til dæmis ýmsum búningahönnuðum, leikstjórum og dönsurum,“ segir Greta um verkefnið.

Hún segir þó að hún gæti ferðast enn meira í tengslum við nýja verkefnið. „Mögulega mun ég koma til Íslands eitthvað næsta sumar á vegum þessa verkefnis,“ bætir Greta við og hlær.

Samningurinn sem hún gerði við fyrirtækið í upphafi rann út í nóvember. „Í rauninni áttu þetta bara að vera átta vikur í upphafi en það gekk svo vel að ég er hér áfram. Ég hlakka mikið til framhaldsins, það eru spennandi tímar fram undan.“

Greta kemur til Íslands um miðjan mars og ætlar þá að einbeita sér að nýrri plötu í fríinu. „Ég nýti pásurnar í að vinna í plötunni.“ Hún vinnur plötuna með Daða Birgissyni og gerir ráð fyrir að senda frá sér fyrsta smáskífulagið af plötunni síðar í mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×