Innlent

Grét og starði á vegginn eftir fæðingu dóttur sinnar

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
„Við brunuðum niður á geðdeild, ég og maðurinn minn og litla stelpan okkar,“ segir Kristín Arna Sigurðardóttir, sem þjáðist af alvarlegum fæðingakvíða eftir að hafa eignast fyrstu dóttur sína. 

Dóttur sem Kristín og maður hennar, Jökull, höfðu eignast með hjálp smásjárfrjóvgunar og biðu með eftirvæntingu.

„Ritarinn verður voða hissa þegar hún sér okkur. Að við höfum verið send þangað. En leyfði okkur að hitta einhvern geðlækni og hann kemur inn í sterílt herbergi. Hvítir veggir og ekkert þar inni. Læknirinn spyr hvað hann geti gert fyrir okkur. Ég reyni að lýsa þessu öllu, að ég geti ekki meir og ég verði að fá hjálp,“ útskýrir Kristín. „Ég var reyndar algjörlega búin á því og ég gat eiginlega ekkert talað. Ég var alveg ófær að sjá um sjálfa mig og hvað þá nýfætt barnið. Hann segir við mig að það sé lítið sem hann geti gert, við verðum bara að bíða og sjá. Og þá bara dó eitthvað innra með mér,“ segir Kristín en ítarlegt viðtal við Kristínu og umfjöllun um fæðingarþunglyndi er hægt að sjá í spilaranum hér að ofan.

Sæunn segir erfitt fyrir foreldra að hlusta á umræðu um fæðingarþunglyndi- og kvíða.
Um 40 íslenskar fjölskyldur eru nú á biðlista til að fá hjálp við fæðingarþunglyndi. Nýleg skýrsla sýnir að það er margfalt dýrara fyrir samfélagið að sinna ekki nýbökuðum foreldrum og börnum fyrstu ár ævi þeirra.

„Ágætt að vitna í skýrslu sem var gerð 2015 hjá London school of ecodomics þar sem var reiknað út hvað það kostar annars vegar að sinna þessum hópi og hvað það kostar að gera það ekki. Ef við heimfærum þetta yfir á Ísland, að sinna ekki barnafjölskyldum í þessu ferli, kostar fyrir hvern árgang 7 milljarða. Að sinna þessum hópi sómasamlega myndi kosta um 230 milljónir á ári og við hjá miðstoð foreldra og barna sem eru eini hópurin nsem er að sinan þessu fyrir utan Landspítalann, fáum 20 milljónir á ári. Þannig að það er verið að verja um 10 prósent af því sem þyrfti að verja í þennan málaflokk,“ segir Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir.

Sæunn segir erfitt fyrir foreldra að hlusta á umræðu um fæðingarþunglyndi- og kvíða, þar sem talað er um að vanlíðan þeirra hafi slæm áhrif á barnið. Þeim líði alveg nógu illa án þess að verið sé að strá salti í sárin.

„Hinsvegar verðum við að gera það því ráðamenn hafa ekki tekið við skilaboðunum. Þeir eru ekki að forgangsraða þessum málum. Og skapa þeim þann sess í heilbrigðistþjónustunni sem þau verða að fá,“ segir Sæunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×