Lífið

Gráhærðir fá loks uppreisn æru

Guðrún Ansnes skrifar
Hugrún Harðardóttir á Barbarella coiffeur er ánægð með fjölbreytnina sem fylgir gráu hárunum.
Hugrún Harðardóttir á Barbarella coiffeur er ánægð með fjölbreytnina sem fylgir gráu hárunum. Vísir/gva
„Ég sé vissulega trend í þessu á stofunni hjá okkur,“ segir Heiðrún Birna Rúnarsdóttir hársnyrtir á Feima. Hún segir konur nálgast gráu hárin með allt öðrum hætti en tíðkast hefur í fjöldamörg ár.

„Mér finnst konur bjóða gráu hárin mikið velkomnari núna, og ég hef verið að taka eftir þessu hægt og bítandi undanfarið ár.“ Heiðrún segir vinsælt að velja skol fremur en lit og þá með það fyrir augum að gefa gráu hárunum aukinn glans frekar en að fela þau. „Sumar hverjar kjósa að lita yfir þau allra gráustu og leyfa hinum að njóta sín.“ Einnig hafi færst í aukana að konur biðji um að láta heillita á sér hárið í gráum lit og jafnvel alveg hvítum, líkt og Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra hefur lengi státað af.

Heiðrún Birna Rúnarsdóttir vinnur á Feima, þar sem náttúruleg efni eru í hávegum höfð. Hún segir gráa hárið vinsælt í dag.Vísir/Vilhelm
Þegar Heiðrún er innt eftir uppruna þessarar nýju tísku segist hún ekki geta sett fingurinn á það, en undanfarin ár hafa náttúrlegir straumar verið ríkjandi í hártískunni. Þessi grái náttúrulegi litur gæti því allt eins verið framhald af þeirri nálgun.

Hugrún Harðardóttir, eigandi Barbarellu, tekur í sama streng og Heiðrún og segir augljósa breytingu á upplifunum kvenna gagnvart þeim gráu hárum sem láta skyndilega á sér kræla. „Ég fæ mikið af konum, ungum konum, sem láta þessi hár ekki trufla sig heldur þvert á móti.“

Hugrún segir þróunina mjög jákvæða. „Ég hef einnig verið að fá ungar konur til mín sem ekki eru farnar að grána en vilja fá gráa litinn,“ útskýrir Hugrún. Mikið frelsi virðist einkenna hártískuna í dag en Hugrún segist auk þess gráa fá mikið af konum inn á stofu til sín sem óski eftir að fá fjólublátt og blátt hár. „Þetta er ótrúlega skemmtilegt og gaman að fá að leika með þessa óhefðbundnu liti.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×