Innlent

Glímir við íslensk hafsvæði í vetrarham

„Ég vona að þessi ferð eigi eftir að vera lærdómsrík, þótt ég reyndar efist um að takast nokkurn tímann aftur á við ævintýri af þessari stærðargráðu," segir Riaan Manser, suðurafrískur sjókajakræðari, sem er á leið hingað í þeim tilgangi að róa umhverfis landið.

Manser hefur tekist á við ýmsar ævintýralegar aðstæður; hjólaði til að mynda fyrstur manna hring um alla Afríku árið 2005 og varð svo fyrstur til að róa umhverfis Madagaskar. Hann hefur þó ekki tekið sér fyrir hendur leiðangur af þessu tagi og kveðst hlakka mikið til að glíma við íslensk hafsvæði í vetrarham, enda ekki margir sem hafa reynt það áður.

„Ísland er alveg einstakt land. Ég heimsótti það og Grænland í fyrra og var upp frá því staðráðinn í að snúa aftur og róa í kringum það, fá tækifæri til að virkilega upplifa töfra þess," segir Manser, sem hefur lesið sér til um íslenska staðarhætti og veðráttu til að vera sem best undirbúinn fyrir leiðangurinn sem hefst 18. mars.

Manser leggur þó ekki frá landi einn síns liðs því með í för verður erlent tökulið sem hyggst gera heimildarmynd um ferðalagið. „Með verður líka félagi minn, Daniel Skinstad, sem glímir við heilalömun og myndin okkar, Iceland Inspiration, kemur til með að varpa ljósi á hans ferðalag ekki síður en mitt og verður vonandi fólki um allan heim hvatning til afreka. Ferðin snýst frekar um það en ekki að slá einhver met," útskýrir Manser, sem stefnir á að ljúka leiðangrinum í júlí gangi allt að óskum.

roald@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×