Innlent

Gleðileikarnir í Borgarnesi hlutu Foreldraverðlaun Heimilis og skóla

Atli Ísleifsson skrifar
Verðlaunahafar vIð Safnahúsið við Hverfisgötu í gær.
Verðlaunahafar vIð Safnahúsið við Hverfisgötu í gær. Mynd/Heimili og skóli
Gleðileikarnir í Borgarnesi hlutu Foreldraverðlaun Heimilis og skóla sem afhent voru í gær. Verðlaunin voru afhent í tuttugasta sinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Hvatningarverðlaun 2015 hljóta nemendur og foreldrar Austurbæjarskóla fyrir Spennistöðina og Sigríður Björk Einarsdóttir hlaut viðurkenning fyrir að vera dugnaðarforkur Heimilis og skóla 2015.

Anna Margrét Sigurðardóttir, formaður Heimilis og skóla, afhenti verðlaunin ásamt Gísla H. Guðlaugssyni, formanni dómnefndar. Mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, forfallaðist því miður en aðstoðarmaður hans, Sigríður Hallgrímsdóttir, flutti ávarp fyrir hans hönd.

Í fréttatilkynningu frá Heimili og skóla segir:

Gleðileikarnir í Borgarnesi hlutu Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2015.

Gleðileikarnir eru þrautaleikur þar sem nemendum á elsta stigi Grunnskóla Borgarness er skipt niður í hópa sem þurfa að leysa krefjandi verkefni sem ekki eru hluti af þeirra daglega skólalífi. Sjálfstæði og samvinna eru einkunnarorð leikanna og miðast að því að efla samheldni og samstöðu í samfélaginu sem og að gefa þátttakendum tækifæri til þess að spreyta sig á skemmtilegum þrautum. Allir þátttakendur fara heim af leikunum með jákvæð og falleg skilaboð í farteskinu og nýja sýn á eigin styrk og getu. Verkefnið er vel heppnað og vekur athygli í samfélaginu, eflir samstarf heimilis og skóla og virkjar foreldra í starfi með nemendum og fær þá til þess að kynnast innbyrðis og öðrum nemendum skólans.

Hvatningarverðlaun 2015 hljóta nemendur og foreldrar Austurbæjarskóla fyrir Spennistöðina.

Um er að ræða menningar- og félagsmiðstöð við Austurbæjarskóla, hugmyndin kom frá nemendum og foreldrum að nýta húsnæði á lóð Austurbæjarskóla og hafa þar fjölnota hús. Nú tæpum tveimur árum seinna er hugmyndin orðin að veruleika og er húsnæðið nýtt undir kennslu fyrripart dags og félagsmiðstöð seinnipartinn og á kvöldin. Aðra tíma er húsnæðið laust til notkunar fyrir íbúa og félagasamtök til þess að efla menningarstarfsemi í miðborg Reykjavíkur.

Sigríður Björk Einarsdóttir dugnaðarforkur Heimilis og skóla 2015.

Sigríður Björk er formaður foreldrafélags Hólabrekkuskóla í Breiðholti og hefur sinnt því embætti síðustu fjögur skólaár með miklum sóma. Hún hefur m.a. unnið að því að efla samstarf foreldra innan skólans og stuðlað að samstarfsverkefnum nemenda á öllum skólastigum. Einnig hefur hún beitt sér fyrir bættu námsumhverfi barna með sérþarfir. „Það má ljóst vera að Sigríður Björk Einarsdóttir, er dugnaðarforkur. Hennar nálgun á skólastarfi einkennist af brennandi áhuga, dugnaði og eljusemi og hefur hún einstakt lag á því að fá fólk með sér til starfa og skapa jákvætt viðhorf til skólans“ segir í tilnefningu.

Í ár bárust 35 gildar tilnefningar til verðlaunanna.

Dómnefnd 2015 var skipuð eftirfarandi aðilum:

  • Gísli H. Guðlaugsson, formaður dómnefndar, Heimili og skóla
  • Ragnheiður Bóasdóttir, mennta- og menningarmálaráðuneyti
  • Guðfinna Ármannsdóttir, formaður foreldraráðs Menntaskólans við Sund
  • Sveinbjörn Kristjánsson, Embætti landlæknis
  • Þóroddur Helgason, fræðslustjóri í Fjarðabyggð
  • Steinunn Ármannsdóttir, skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar
  • Aðalheiður Steingrímsdóttir, Kennarasamband Íslands.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×