Innlent

Gjaldþrot Björgólfs fjórðungur af heildartekjum ríkisins

Sigríður Mogensen skrifar

Hundrað milljarða króna gjaldþrot Björgólfs Guðmundssonar er langstærsta gjaldþrot einstaklings hér á landi frá upphafi. Gjaldþrotið nemur fjórðungi af heildartekjum ríkisins á einu ári.

Hérðasdómur Reykjavíkur féllst í dag á beiðni Björgólfs Guðmundssonar um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Skuldir og persónulegar ábyrgðir Björgólfs nema nú alls rúmum 96 milljörðum króna. Í byrjun árs 2008 námu skuldirnar hins vegar um 35% af heildareignum.

Í beiðni Björgólfs til Héraðsdóms segir að af eignayfirliti megi ráða að hann hafi ekki möguleika á því að greiða persónulegar ábyrgðir og skuldir. Þær aðstæður séu ekki aðeins tímabundnar.

Í úrskurði héraðsdóms segir að ljóst sé að Björgólfur Guðmundsson sé ófær um að standa í fullum skilum við lánadrottna og engin von sé til þess að það ástand breytist til hins betra í fyrirsjáanlegri framtíð.

Í tilkynningu sem Björgólfur sendi frá sér í dag segir að heimili hans hafi alltaf verið í eigu konu hans. Þá segir að allar eignir sem hann hafi átt í innlendum hlutafélögum hafi verið afskrifaðar og að óvissa sé um bankainnistæður sem hann eigi í Landsbankanum í Lúxemborg. Þær nema 4-6 milljónum evra.

Gjaldþrot Björgólfs er langstærsta gjaldþrot einstaklings hér á landi frá upphafi.

Næst stærsta gjaldþrot einstaklings hér á landi var gjaldþrot Magnúsar Þorsteinssonar sem var náinn viðskiptafélagi Björgólfsfeðganna. Gjaldþrot hans nam tugum milljarða.

Til að setja þetta gríðarstóra gjaldþrot í samhengi má taka fram að tekjur ríkissjóðs á þessu ári eru áætlaðar um 400 milljarðar. Persónulegt gjaldþrot Björgólfs er því fjórðungur af heildartekjum ríkisins á einu ári.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×