Innlent

Geitin Gilitrutt þjálfar hunda

Ásta Dóra og nýjasti starfsamaður hennar; geitin Gilitrutt.
Ásta Dóra og nýjasti starfsamaður hennar; geitin Gilitrutt.
Geitin Gilitrutt hefur tekið til starfa í hundaskólanum Gallerí Voff.

„Nei, hún er ekki hrædd við hunda. En, hún er svolítið villt ennþá og er hrædd við fólk. En, ég hef heyrt fólk tala vel um geitur og hef engar áhyggjur,“ segir Ásta Dóra Ingadóttir sem hefur rekið hundaskólann Gallerí Voff allt frá árinu 1991 og er vel þekkt meðal margra hundaeigenda.

Gilitrutt er til aðstoðar í einkatímum sem eru hugsaðir sérstaklega til að venja hunda af því að eltast við fé. Gilitrutt er ætlað að vera fyrirbyggjandi, svo hundar fái ekki óþarfa áhuga á kindum eða geitum. „Og, ef fólk hefur einu sinni misst hund sinn í rollur þá veit hann of vel að þetta er ekki sama dýrategundin og þá getur þetta horft til vandræða,“ segir Ásta.

Ekki er víst að geitin dugi og þá verður kind kölluð til aðstoðar. „Ég hef tamið margar kindur. Þær eru skynsamar og auðtamdar – sérstaklega hrútarnir,“ segir Ásta Dóra sem hefur starfað talsvert fyrir kvikmyndagerðarmenn og leikhús: „Ég hef þjálfað kindur, ketti og auðvitað hunda samkvæmt handriti. Ég hef kennt hrúti að ganga á göngubretti, fara yfir kindastiga, hlýða kalli úti í náttúrunni, leggjast, bíða og hoppa yfir hindranir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×