Innlent

Garðarnir þegar sýnt gildi sitt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/HAFÞÓR
Snjóflóðamannvirki undir Traðarhyrnu í Bolungarvík voru vígð í gær en framkvæmdir við garðana hófust sumarið 2008.

Um er að ræða annarsvegar 710 metra langan garð sem nær í um 22 metra hæð þar sem hann er hæstur og hinsvegar 240 metra garð sem er um 12 metrar á hæð. 

Ofan við garðana séu átta keilur sem hver um sig er um fjörutíu metra löng og tólf metrar á hæð. Meira en 400 þúsund rúmmetrar af jarðvegi og grjóti fóru í framkvæmdina.

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti ávarp og vígði garðana formlega. Hann segir mannvirki sem þessi nauðsynleg. „Dæmin hafa nú sýnt það. Meira að segja þar sem við stöndum hér kom snjófljóð rétt fyrir jólin 2012 og undanfarna tvo vetur hefði hugsanlega þurft að rýma hér hús,“ segir Sigurður og bætir við að garðarnir hafi nú þegar sýnt gildi sitt.

Sigurður segir það markmið stjórnvalda að verja þær byggðir landsins sem búa við mesta snjóflóðahættu. Hann býst þó við að verkefnið, sem hann segir umfangsmikið, muni dragast á langinn og að stjórnvöld séu ekki komin allan hringinn – þrátt fyrir að vera komin víða af stað.

Frekar verður fjallað um vígsluna í kvöldfréttum Stöðvar 2.

VÍSIR/HAFÞÓR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×