Íslenski boltinn

Garðar um glæsimarkið: Þetta er ofarlega á listanum

Ingvi Þór Sæmundsson á Akranesi skrifar
Garðar Gunnlaugsson skoraði stórglæsilegt mark þegar ÍA bar sigurorð af ÍBV á Norðurálsvellinum í dag.

Þetta var áttunda mark Garðars í síðustu fimm leikjum en hann hefur verið sjóðheitur að undanförnu.

„Ég fékk boltann í fæturna og sný af mér manninn sem kom að mér. Ég ætlaði kannski ekki að setja hann í skeytin inn en ég ætlaði að ná snúningi út og það tókst,“ sagði Garðar sem hefur gert ansi falleg mörk í sumar, þ.á.m. gegn KR og Val.

„Þetta er mjög ofarlega á listanum. Ég á reyndar eftir að sjá þetta í sjónvarpinu því það var maður sem hljóp fyrir skotlínuna þannig ég sá boltann ekkert í netinu. En ég sé þetta þegar ég kem heim.“

Garðar kvaðst ánægður með spilamennsku Skagamanna sem hafa nú unnið fimm leiki í röð.

„Við vissum að Eyjamenn myndu liggja til baka og við gengum á lagið, héldum boltanum virkilega vel, sérstaklega fyrstu 35 mínúturnar. Svo förum við meðvitað að reyna að halda forystunni í hálfleik,“ sagði Garðar.

Skagamaðurinn Darren Lough fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt 16 mínútum fyrir leikslok. Eyjamenn komust þá betur inn í leikinn en Garðar segist aldrei hafa verið áhyggjufullur.

„Nei, aldrei. Mér fannst þeir aldrei fá færi og þeir kalla á vítaspyrnu í eitt skiptið en mér fannst það alls ekki vera víti,“ sagði Garðar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×