Íslenski boltinn

Garðar: Ákváðum að byrja tímabilið fyrir alvöru í síðasta leik

Ingvi Þór Sæmundsson á Norðurálsvellinum skrifar
Garðar Gunnlaugsson skoraði þrennu þegar ÍA vann 4-2 sigur á Stjörnunni á Akranesi í kvöld.

Skagamenn lentu tvisvar undir í leiknum en frábær kafli um miðbik seinni hálfleiks, þar sem ÍA gerði þrjú mörk á níu mínútum, gerði útslagið.

„Ég er hrikalega ánægður. Þetta var liðssigur og við erum mjög sáttir,“ sagði Garðar eftir leik.

„Þetta sýnir karakterinn í liðinu. Þetta gerðist líka í fyrra, við vorum að lenda undir og svo keyrðum við okkur í gang.“

Skagamenn hafa nú unnið tvo leiki í röð, gegn KR og Stjörnunni, en Garðar hefur skorað fimm af sex mörkum ÍA í þessum leikjum. Framherjinn öflugi er alls kominn með átta mörk í Pepsi-deildinni og er orðinn markahæsti leikmaður hennar.

„Við ákváðum að byrja tímabilið fyrir alvöru í síðasta leik og það hefur heldur betur tekist,“ sagði Garðar sem hefur í undanförnum leikjum verið með Tryggva Hrafn Haraldsson sér við hlið í framlínunni. Garðar kveðst ánægður með þeirra samvinnu.

„Það er frábært að hafa Tryggva, hann er þindarlaus, hleypur endalaust bak við varnirnar og skapar pláss fyrir mig. Mér finnst við ná mjög vel saman,“ sagði alsæll Garðar Gunnlaugsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×