Fótbolti

Gamla lið Viðars og Sölva féll óvænt út í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gao Lin, fyrirliði Guangzhou Evergrande.
Gao Lin, fyrirliði Guangzhou Evergrande. Vísir/Getty
Peningatröllin í kínversku deildinni fóru ekki langt í Meistaradeild Asíu í fótbolta í ár.Guangzhou Evergrande og Jiangsu Suning hafa bæði eytt miklum peningum í leikmenn að undanförnu en það skilaði sér ekki í Meistaradeildinni. Bæði liðin komust ekki í gegnum riðlakeppnina í Meistaradeild Asíu.

Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson og Víkingurinn Sölvi Geir Ottesen urðu bikarmeistarar með Jiangsu Sainty á síðustu leiktíð.

Félagið skipti um aðalstyrktaraðila á milli tímabila og ber nú nafnið Jiangsu Suning. Það missti líka frá sér báða íslensku landsliðsmennina.

Viðar fór frá Jiangsu til sænska liðsins Malmö en Sölvi Geir samdi við við kínverska b-deildarfélagið Wuhan Zall.

Guangzhou Evergrande leikur undir stjórn Luiz Felipe Scolari og varð kínverskur meistari á síðasta ári. Liðið fékk til sín Jackson Martinez  fyrir 31 milljón punda og Paulinho fyrir 10 milljónir punda á síðasta ári.

Jiangsu Suning fékk til sín Alex Teixeira fryir 38,4 milljónir punda en Liverpool var á eftir honum í janúarglugganum. Ramires, fyrrum leikmaður Chelsea, sem kostaði 25 milljónir punda og Jo spila líka báðir fyrir lið Jiangsu.

Guangzhou Evergrande varð í 3. sæti í sínum riðli og vann bara 2 af 6 leikjum sínum. Lið frá Ástralíu (Sydney FC) og Japan (Urawa Red Diamonds) urðu í tveimur efstu sætunum og komust í sextán liða úrslitin.

Jiangsu Suning varð í 3. sæti í sínum riðli og vann bara 2 af 6 leikjum sínum. Lið frá Suður-Kóreu (Jeonbuk Hyundai Motors) og Japan (FC Tokyo) urðu í tveimur efstu sætunum og komust í sextán liða úrslitin.

Í sextán liða úrslitunum spila meðal annars tvö önnur lið frá Kína en það eru Shandong Luneng og Shanghai SIPG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×