Innlent

Gagarín fer með himinskautum og lagði Google

Jakob Bjarnar skrifar
Glaðir Gagrínmenn, þeir Sammi og Maggi, hampa verðlaununum. Orkusýningin sem Gagarín gerði, ásamt með Tvíhorf arkítektum, fyrir Landsvirkjun, hefur heldur betur slegið í gegn.
Glaðir Gagrínmenn, þeir Sammi og Maggi, hampa verðlaununum. Orkusýningin sem Gagarín gerði, ásamt með Tvíhorf arkítektum, fyrir Landsvirkjun, hefur heldur betur slegið í gegn.
Margmiðlunarfyrirtækið Gagarín hlaut gullverðlaun í flokki stafrænnar hönnunar í samkeppni á vegum European Design Awards 2016 fyrir orkusýningu Landsvirkjunar „ Orka til framtíðar“ í Ljósafossstöð.

Gagarín hefur hreppt fjölda verðlauna og viðurkenninga á undanförnum árum og virðist ekkert lát á því. Velgengni fyrirtækisins á alþjóðavettvangi hættir að heyra til tíðinda. Það sem vekur athygli í tengslum við þessi tilteknu verðlaun er sú staðreynd að það er stórfyrirtækið Google sem er í öðru sæti.

„Þetta er hálf ... ótrúlegt eitthvað,“ segir Kristín Eva Ólafsdóttir hönnunarstjóri Gagarín: „En, einstaklega gaman og viðurkenning á því að við erum samkeppnisfær úti í hinum stóra heimi.“

Kristín Eva hönnunarstjóri og þau hjá Gagarín hafa varla við að taka á móti virðulegum verðlaunum.
Landsvirkjun hlýtur að fagna því sérstaklega að hafa fengið Gagarín til liðs við sig, við að setja upp þessa rómuðu sýningu en í henni eru gestir leidd­ir inn í heim raf­orkunn­ar á nýj­an og skap­andi máta. Sýningin var formlega opnuð á 50 ára afmæli Landsvirkjunar sumarið 2016 og er opin alla daga frá 10-17. Gaga­rín og Tví­horf arki­tekt­ar eru hönnuðir sýn­ing­ar­inn­ar og komu fjöldi fyr­ir­tækja og sér­fræðinga að sýn­ing­unni. Fyrr á árinu hlaut sýningin fyrstu verðlaun Félags íslenskra teiknara í flokknum „gagnvirk miðlun og upplýsingahönnun“.

European Design Awards er samstarfsverkefni 16 evrópskra hönnunartímarita og 9 bloggsíðna, sem öll eru framarlega á sínu sviði og dómnefndina skipa fulltrúar þeirra. Fulltrúar Gagarín tóku á móti verðlaununum síðastliðna helgi á veglegri hátíð í Austurríki en þetta er þriðja árið í röð sem fyrirtækið er verðlaunað á þessari hátíð.

Tvenn verkefni hlutu silfurverðlaun í sama flokki en það var gestastofa Google í Dublin og norðurljósaverkefni sem unnið var fyrir ferðagátt Noregs „Visit Norway“. Leturfyrirtækið Monotype hlaut bronsverðlaun fyrir gagnvirka leturinnsetningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×