Skoðun

Höfnum ó­eðli­legri hag­nýtingu sjálf­boða­liða

Ástþór Jón Ragnheiðarson skrifar

Á hverjum degi eru auglýst ótal störf á vinnumarkaði. Ætla má að atvinnulífið sé í sókn og er það vel. Eins og með allt sem er vel eru einnig atriði sem er ábótavant. Á liðnum árum höfuð við séð í auknu mæli atvinnurekendur sem fá til sín fólk í sjálfboðastörf. Það sem er átt við með sjálfboðastöfum eru þau störf þar sem ekki eru greidd laun en innihalda mögulega fæði, uppihald og vasapeninga fyrir störfin. Algengast er að um sé að ræða ungt fólk af erlendu bergi brotið sem er í leit að ævintýrum og upplifun.

En ævintýrið getur fljótt orðið að martröð og upplifunin neikvæð. Dæmi eru um að sjálfboðaliðar séu notaðir í efnahagslegri, virðisaukandi starfsemi. Slík notkun á sjálfboðaliðum skekkir heilbirgðan samkeppnismarkað og er á skjön við kjarasamninga og þær leikreglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Það er ekki undir neinum kringumstæðum eðlilegt að hagnýta sjálfboðaliða til starfa í ferðaþjónustu, á hestaleigum eða til blandaðra starfa á sveitabýlum, svo dæmi séu tekin.

Séu sjálfboðaliðar fengnir til starfa í efnahagslegri, virðisaukandi starfsemi, ber að virða þær leikreglur sem gilda á vinnumarkaði. Það ber að greiða laun í samræmi við kjarasamninga, gera ráðningarsamning og launaseðla. Jafnframt að skilað sé vinnuréttargjöldum, lífeyrissjóð og sköttum til hins opinbera.

Því miður verðum við oft vitni að því sem störfum innan verkalýðshreyfingarinar að sannarlega er verið að hlunnfara fólk og eru sjálfboðaliðastörf þar á meðal. Dugir í þeim efnum að nefna vefsíður eins og workaway.info þar sem oft á tíðum má sjá auglýst eftir sjálfboðaliðum, til þess að sinna virðisaukandi störfum, án þess að til standi að greiða laun og fara að leikreglum vinnumarkaðarins.

Ekki þarf að dvelja við málefnið lengi til þess að sjá þann skaða sem íslenskt samfélag ber af svona athæfi. Þetta grefur undan réttindum vinnandi fólks, hinu opinbera verður af tekjum sem meðal annars eru notaðar til þess að halda hér uppi samfélagi og innviðum og eðlileg samkeppnisstaða fyrirtækja skekkist.

Á sama tíma og atvinnulífið er í vexti ættum við að horfa til þess að hafna óeðlilegri hagnýtingu sjálfboðaliða sem og öðrum félagslegun undirboðum á vinnumarkaði.

Rétt eins og með önnur brot á vinnumarkaði þá vantar að eftirlitsaðilar fái ríkari heimildir og fjármagn og að við eflum eftirlitsstofnanir en frekar í stað þess að draga úr þeim. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Boltinn liggur hjá ríkisvaldinu en við sem samfélag getum tekið meðvitaða ákvörðun um að taka ekki þátt í undirboðum á vinnumarkaði.

Höfundur er eftirlitsfulltrúi hjá Verkalýðsfélagi Suðurlands og formaður ASÍ-UNG.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×