Körfubolti

Miklu fleiri horfðu á konurnar en karlana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caitlin Clark fór fyrir Iowa Hawkeyes liðinu og hefur eignast milljónir aðdáenda á undanförnum árum.
Caitlin Clark fór fyrir Iowa Hawkeyes liðinu og hefur eignast milljónir aðdáenda á undanförnum árum. Getty/Thien-An Truong

Áhuginn á háskólakörfubolta kvenna í Bandaríkjunum er í sögulegu hámarki og sjónvarpsáhorfið á úrslitaleik karla og kvenna sýndi það líka svart á hvítu.

Um síðustu helgi fóru fram úrslitaleikir háskólaboltans. Konurnar spiluðu á sunnudagskvöld en karlarnir á mánudagskvöldi.

UConn vann Purdue í úrslitaleik hjá körlunum og var að vinna titilinn annað árið í röð.

Hjá konunum vann síðan South Carolina skólinn sigur á Iowa. South Carolina vann þar með alla leiki sína á tímabilinu. Með Iowa spilar hin ótrúlega vinsæla og frábæra körfuboltakona Caitlin Clark sem hefur öðrum fremur keyrt upp áhugann á kvennakörfunni. Hún þurfti þó að sætta sig við að tapa úrslitaleiknum annað árið í röð.

Hingað til hefur athyglin alltaf verið mun meiri á karlaleiknum en ekki í vetur. Að þessu sinni féllu strákarnir algjörlega í skuggann á stelpunum.

Það var barist um miðana á úrslitin hjá konunum og miðaverðið rauk upp og var hærra en á karlakeppnina.

Síðasti vitnisburðurinn um meiri áhuga á konunum en körlunum voru síðan áhorfendatölur á leikina í sjónvarpi. Niðurstöðurnar voru gefnar út í gær og þær eru sláandi. Miklu fleiri horfu á konurnar en karlana og munað milljónum í áhorfi.

Alls horfðu 18,9 milljónir á úrslitaleikinn hjá konunum en 14,8 milljónir horfðu á úrslitaleikinn hjá körlunum. Áhorfið á karlaleikinn var 14,7 milljónir í fyrra og hækkaði því örlítið. Það var þó ekkert miðað við það sem gerðist hjá konunum.

Áhorfið nánast tvöfaldist á milli ára en það var líka met þegar 9,9 milljónir horfðu á konurnar í fyrra.

Þetta er líka mesta áhorf á körfuboltaleik í Bandaríkjunum í fimm ár og þar erum við að taka með alla leikina í NBA-deildinni. Ótrúlegar tölur og magnaðar vinsældir hjá stórskyttunni Caitlin Clark sem er nú á leiðinni í WNBA-deildina í sumar. Það má búast við því að áhorfendametin fari að falla þar líka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×